Engar „stórkostlegar breytingar í frjálsræðisátt“

Sigurður Konráðsson,prófessor og nefndarmaður í mannanafnanefnd.
Sigurður Konráðsson,prófessor og nefndarmaður í mannanafnanefnd. mbl.is/Árni Sæberg

Nefndarmaður í mannanafnanefnd segist ekki sjá nein rök fyrir því að núverandi mannanafnalög séu úrelt. Telur hann áform dómsmálaráðherra um breytingar á lögunum ekki vera stórkostlegar breytingar í frjálsræðisátt. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur lagt fram til kynningar drög að frumvarpi til laga um mannanafnanöfn, sem hefur það markmið að rýmka heimildir til skráningar nafna og kenninafna. 

Í samtali við RÚV sagði Áslaug núverandi fyrirkomulag vera úrelt og skerða frelsi einstaklinga. 

Sigurður Konráðsson, nefndarmaður í mannanafnanefnd og prófessor í íslensku máli við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að það verði að koma í ljós í hvaða breytingar verði farið nákvæmlega. Umræddar tillögur séu ekki þær fyrstu sem fram hafi komið um breytingar á mannanafnalögum. 

„Þetta er náttúrulega fyrirhugað ennþá og það eru einhverjar hugmyndir komnar fram, svona frekar óljósar, sem er kannski eðlilegt á þessu stigi. Það er í sjálfu sér ágætt að hafa skýr lög um þetta. Við höfum stundum sagt í mannanafnanefnd að við störfum bara eftir lögum sem eru samþykkt af Alþingi,“ segir Sigurður. 

Telur núverandi fyrirkomulag ekki úrelt

Sigurður segist ekki vera sammála því að núverandi fyrirkomulag sé úrelt. 

„Ég sé nú engin sérstök rök fyrir því að það sé úrelt að hafa þetta svona. Samkvæmt þessum hugmyndum í samráðsgáttinni verða ennþá takmarkanir á því hvaða nöfnum maður getur gefið börnum sínum eða sjálfum sér eftir atvikum. Ég get nú ekki séð að það sé einhver stórkostleg breyting í frjálsræðisátt, ef maður hefði ætlað að hugsa sér það þá ætti bara að hafa þetta alfrjálst,“ segir Sigurður. 

Samkvæmt tillögum dómsmálaráðherra mun Þjóðskrá Íslands taka ákvörðun um heimild til skráningar nýrra nafna í stað mannanafnanefndar. Sigurður telur líklegt að undir þeim kringumstæðum myndi Þjóðskrá líklega þurfa að leita eftir sérfræðiáliti. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að það séu mjög fá og afmörkuð tilvik sem komi fyrir mannanafnanefnd og að í þeim tilvikum sé þörf á sérfræðiþekkingu í íslensku. 

Aðspurður hvað sér finnist um að mannanöfn verði undanskilin íslenskri stafsetningu, segir Sigurður það líklega til þess fallið að flækja hlutina að óþörfu. 

„Ég sé nú ekki annað en að það eigi í meginatriðum ekki við góð rök að styðjast. Ég held að það sé röng áhersla. Jafnvel þó að við miðum bara við okkar latneska stafróf eru til gríðarlega margar útgáfur af bókstöfum víða um heim og ef við ætluðum að fara nota það allt saman yrði það bara til þess að rugla okkur og gera stafsetninguna miklu erfiðari. Sem er alveg ástæðulaust.“

Mannanafnasiðurinn hluti af íslenskri tungu

Þá segir Sigurður að það skjóti að einhverju leyti skökku við að mannanöfn verði undanskilin íslenskri stafsetningu, þegar stjórnvöld leggi mikið upp úr því að standa vörð um íslenska tungu. 

„Ég get nú ekki séð það að þetta fari saman. Mannanafnasiðurinn og mannanafnaforðinn eru auðvitað hluti af íslenskri tungu og eins að mannanöfnin beygjast á ákveðinn hátt eins og önnur sérnöfn og önnur nafnorð og fallorð. Mér finnst þetta fara algjörlega þvert á þær hugmyndir og ég trúi ekki öðru en að menntamálaráðherra sé ekkert alltof ánægður með þessar hugmyndir,“ segir Sigurður. 

Drög að frumvarpi dómsmálaráðherra eru nú í samráðsgátt og rennur umsagnarfrestur út 13. desember. Sigurður segist gera ráð fyrir því að mannanafnanefnd skili inn umsögn. 

„Þetta er nú ekki í fyrsta skiptið sem það koma fram hugmyndir um breytingar á mannanafnalögum. Við höfum nú ævinlega skrifað umsagnir og rætt við þá nefnd Alþingis sem hefur með þetta að gera hverju sinni og ég á nú ekki von á því að það verði breyting á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert