Fram kom í máli Dags B. Eggertssonar borgarstjóra á borgarafundi um loftslagsmál hjá RÚV um daginn að hlutfall hjólreiða í samgöngum í borginni hefði aukist í 7%. Það væri mikil aukning á fáum árum.
Talan var sótt í ferðavenjukönnun Gallup sem framkvæmd var í október til nóvember 2017. Til samanburðar var hlutfallið innan við 1% í sömu könnun 2002, 5% árið 2011 og 6% árið 2014. Það jókst því um 1% í borginni milli ferðavenjukannana árin 2014 og 2017.
Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), segir aðspurður þetta vera marktæka aukningu á hlutfalli hjólreiða í samgöngum.
„Það má sjá fleiri hjólandi en fyrir fimm árum. Ég hef hjólað reglulega frá því ég kom frá Danmörku 2008 og finn mikinn mun. Það er góð samsvörun milli tilfinningarinnar og þessara niðurstaðna,“ segir Hrafnkell í Morgunblaðinu í dag um þróunina síðustu ár.