Hitamet í desember eða bilaður mælir?

Það hefur verið heitt við Kvísker í dag.
Það hefur verið heitt við Kvísker í dag. mbl.is/RAX

Frekar milt hefur verið á landinu öllu í dag en hvergi þó jafn hlýtt og við Kvísker í Öræfum. Samkvæmt vefsíðu Veðurstofu Íslands mældist hæsti hiti á landinu þar í dag; 19,7 gráður.

Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson á hálfbágt með að trúa þessum tölum þegar blaðamaður slær á þráðinn til hans en segir að oft verði milt á þessu svæði þegar loft streymir niður frá Öræfajökli.

„Þetta er grunsamlega há tala miðað við aðstæður,“ segir Einar. Hann bætir við að Veðurstofan þurfi að staðfesta hitann á morgun og „líta betur á mælinn“ eins og hann orðar það.

Eftir smá grúsk er það niðurstaða veðurfræðingsins að hæsti hiti sem mælst hafi í desember á landinu sé 18,4 gráður á Sauðanesvita vestan Siglufjarðar 14. desember 2001.

Auk þess bendir Einar á að 9. desember 2010 hafi mælst 17,3 gráðu hiti á sama mæli í Kvískerjum og því sé ekki alveg fráleitt að þar mælist háar hitatölur á þessum tíma ársins. 

„Það hefur nokkrum sinnum mælst 20 stiga hiti á landinu í nóvember en það hefur ekki gerst í desember við skjóta yfirferð eldri hitameta,“ segir Einar.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert