Hvassahraun ekki arðbært

Reykjavíkurflugvöllur. Aðalbrautin sem liggur frá norðri til suðurs.
Reykjavíkurflugvöllur. Aðalbrautin sem liggur frá norðri til suðurs. mbl.is/Sigurður Bogi

Gerð nýs flugvallar í Hvassahrauni verður aldrei arðbær nema völlurinn verði alhliða og þjóni bæði innanlands- og millilandaflugi. Þetta segir Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands,í umfjöllun um flugvallarmál á suðvesturhorni landsins í Morgunblaðinu í dag.

Matthías bendir á að mikil uppbygging á Keflavíkurflugvelli sem Isavia hefur áform um og að útbúa nýjan innanlandsvöll í Hvassahrauni sé fjárfesting upp á 280 milljarða króna. Eðlilegt sé því að skoða hvort ekki sé skynsamlegt að einn aðalflugvöllur landsins verði í Hvassahrauni, enda felist margvíslegt hagræði í því að færa þessa starfsemi nær höfuðborgarsvæðinu.

Samkvæmt samkomulagi sem samgönguráðherra og borgarstjóri undirrituðu fyrir helgina verður nú farið í rannsóknir á aðstæðum á hugsanlegu flugvallarsvæði í Hvassahrauni, svo sem á veðurfari. Á þeirri forvinnu að ljúka eftir tvö ár, en flugvallargerðin tekur ef af verður 15-17 ár. Með tilliti til veðráttu segist Matthías, sem er atvinnuflugmaður, ekki útiloka þetta flugvallarstæði. Því verði aftur á móti að halda til haga að í fyrrgreindu samkomulagi sé margt óljóst. Reykjavíkurborg ætli að skoða breytingar á aðalskipulagi þótt ljóst megi vera að flugvöllur verði áfram í Vatnsmýri næstu 15-17 árin.

„Almennt get ég líka sagt að ef ekki koma skýrar skuldbindingar borgarinnar um að halda í Reykjavíkurflugvöll ríkir óvissuástandið áfram. Í því samhengi má nefna að samkvæmt gildandi skipulagi á að loka aðalbraut vallarins sem liggur frá norðri til suðurs eftir tvö ár en slíkt gerir völlinn óstarfhæfan,“ segir Matthías Sveinbjörnsson.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka