Stjórn RÚV hefur framlengt frest til að sækja um stöðu útvarpsstjóra um eina viku, en umsóknarfresturinn átti að renna út í dag. Er umsóknarfresturinn þar með framlengdur til 9. desember. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kára Jónassyni, stjórnarformanni RÚV, sem send var á fjölmiðla.
Staðan var auglýst 15. nóvember, en fram hefur komið að stjórn RÚV ætli ekki að birta nöfn umsækjenda eftir ráðleggingu frá Capacent. Hafa margir gagnrýnt þá ákvörðun, meðal annars þingmenn og sagði Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra á þingi í dag að hún hefði sent stjórn RÚV bréf þar sem hún krafði þá um svör á því af hverju ekki ætti að birta lista yfir þá sem sækja um stöðuna.