Eta og drekka fyrir 360 þúsund á fundi

Kostnaður við þá 20 fundi sem borgarstjórn hefur haldið frá júlí á síðasta ári til júní á þessu ári nemur rúmum 17 milljónum eða 850 þúsund krónum á hvern fund. Inni í þeirri upphæð er matur frá Múlakaffi upp á 5,8 milljónir eða 295 þúsund á hvern fund og svo aðrar veitingar upp á 1,3 milljónir. Á hverjum fundi borgarstjórnar er því borðað og drukkið fyrir 360 þúsund krónur eða rúmar 15 þúsund krónur á hvern borgarfulltrúa.

Þetta kemur fram á vef RÚV þar sem vísað er í svar fjármála- og áhættustýringarsviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Pawels Bartoszek, forseta borgarstjórnar, sem kynnt var á fundi forsætisnefndar á fimmtudag. 

Í svari skrifstofustjóra borgarstjórnar kemur fram að kostnaðurinn við hvern fund borgarstjórnar sé um það bil 850 þúsund krónur. Greitt sé fyrir veitingar handa borgarstjórn, útsendingar á vef Reykjavíkurborgar og fyrir yfirvinnu húsvarða í Ráðhúsinu frá klukkan sex um kvöldið. 

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins lagði fram svohljóðandi bókun á fundinum: „Hrikalegar tölur birtast okkur hér. Kostnaður sem er algjörlega óþarfur. Meirihlutinn rígheldur í þá skoðun að byrja borgarstjórnarfundi kl. 14:00 í stað þess að láta þá byrja kl. 10:00 á morgnana. Meðaltalskostnaður við hvern fund er 850.000 kr. vegna yfirvinnu og fl. Í svarinu kemur fram að haldnir hafi verið 20 fundir og er kostnaðurinn þá orðinn 17 milljónir. Veitingar eru 40% af þeirri upphæð. Það sjá allir í hendi sér að þarna eru miklir fjárhagslegir hagsmunir í húfi og mikil tækifæri til sparnaðar. Sú tillaga hefur margoft komið fram og er ótrúlega einföld. Byrja fundi fyrr.“

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:

„Borgarfulltrúi Flokks fólksins á ekki orð yfir þeim kostnaði sem einn borgarstjórnarfundur kostar. Meðalkostnaður fyrir hvern fund á kjörtímabilinu er ca. 850.000.- vegna veitinga fyrir borgarstjórn, vegna útsendinga á vef Reykjavíkurborgar og í útvarpi og vegna yfirvinnu húsvarða í Ráðhúsi frá kl. 18.00. Borgarfulltrúi hefur rætt við tæknimenn um þessi mál og ber flestum saman að þessi upphæð er ekki eðlileg. Tæknihlutinn er að taka stærstan hluta af þessari upphæð. Gæði útsendinga eru auk þess léleg, hljóð og mynd fer ekki saman. Ef borið er saman við útsendingar Alþingis má sjá gríðarlegan mun. Hér þarf að skoða málin ofan í kjölinn og auðvitað finna aðra leið. Þessa upphæð mætti lækka um helming í það minnsta hvað varðar tæknilegu málin. Borgarfulltrúi gerir þá kröfu að þeir sem annast þessi mál taki þetta til gaumgæfilegrar athugunar, geri verðkönnun og samanburð sem þarf til að finna ódýrari leiðir. Útboð þarf að vera á öllum kostnaðarþáttum að sjálfsögðu jafnvel þótt áætlun um kostnað nái ekki viðmiði innkaupareglna.“

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata ásamt áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi gagnbókun: 

„Fulltrúar meirihlutans árétta að ekki var tekin afstaða á þessum fundi til þeirrar hugmyndar að byrja fundi fyrr. Af öllum kostnaðarliðum sem má skoða nánar vilja fulltrúar meirihlutans ekki endilega leggja áherslu á það að spara kostnað við það opna lýðræðislega samtal sem fram fer á fundum borgarstjórnar. Sjálfsagt er þó að rýna kostnað við borgarstjórnarfundi. Þess vegna er fyrirspurnin lögð fram, að okkar frumkvæði.“

Uppfært 11:00: Reykjavíkurborg hefur komið þeirri athugasemd á framfæri að um 40 manns borði í hvert skipti í borgarstjórn. Þannig sé nær að deila kostnaðartölunni 15.000 niður á þann fjölda. Það þýðir að kostnaður á hvern einstakling er um 9.000 krónur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert