„Svona samningar eru umdeilanlegir“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hari

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson gagnrýndu „fordæmalaust samkomulag“ sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra gerði við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra.

Samkomulagið hljóðar upp á að fráfarandi ríkislögreglustjóri sem lýst hefur verið yfir vantrausti á leiði stefnumótunarvinnu í ráðuneytinu um framtíðarskipulag lögreglumála næstu þrjá mánuði. Að því loknu haldi hann óskertum launum sínum án vinnuframlags í samtals 24 mánuði,“ sagði Helga Vala á Alþingi í dag.

Hún spurði dómsmálaráðherra hvort það væri heppilegt að einstaklingur sem njóti hvorki trausts átta af níu lögreglustjóra á landinu né Landssambands lögreglumanna leiði stefnumótunarvinnu um framtíðarskipulag löggæslu á landinu.

Helga Vala spurði einnig hvort ráðherra teldi að meðalhóf og jafnræði hefði ríkt við ákvörðunartökuna þegar næstum því 40 milljón króna útgjöld skattgreiðenda voru samþykkt til handa einstökum embættismanni.

Ráðherra telur að meðalhófs hafi verið gætt

Áslaug Arna sagðist vilja leiðrétta það að Haraldur muni ekki leiða stefnumótunarvinnu heldur vinna sérstök verkefni í ráðuneytinu. Hún telur mikilvægt að nýta áfram reynslu sem er í kerfinu.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvað samninginn varðar er almenna heimild til samningagerðar að finna í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ég tel, já, að meðalhófs og jafnræðis hafi verið gætt,“ sagði ráðherra.

Haft var samráð við Kjara- og mannauðssýsluna í þessu tilviki. Ég myndi segja að þeir væru sjaldgæfir og ættu að vera það, að þetta eigi að vera undantekning en ekki regla í kerfinu. Ég tel þó klárlega forsendur til að ganga frá starfslokum við Harald sem óskaði eftir því og við komumst að þessu samkomulagi með þessum hætti,“ sagði Áslaug Arna enn fremur.

Verið að víkka rétt embættismanna

Helga Vala benti á að samkvæmt tilkynningu frá fráfarandi ríkislögreglustjóra hefði hann sjálfur óskað eftir þessum starfslokum og sagði að ráðherra hefði orðið við því. 

Ráðherra talaði um réttindi embættismanna. Það hefur almennt séð verið miðað við 12 mánaða rétt embættismanna þegar embætti er fellt niður. Hér er verið að víkka þann rétt umtalsvert, eða um næstum því helming, þannig að maður veltir fyrir sér því fordæmi sem dómsmálaráðherra setur með þessu,“ sagði Helga Vala.

Áslaug Arna sagðist skilja það sem svo að Helga Vala samþykkti starfslokasamninginn vegna þess að hún vildi að ríkislögreglustóri viki úr embætti. 

Ég veit þó og þekki að svona samningar eru umdeilanlegir og þessi er það líka. Að sama skapi tel ég að það eigi að vera undantekning en ekki regla að gera slíka samninga,“ sagði ráðherra.

Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson.
Píratinn Helgi Hrafn Gunnarsson. mbl.is/Hari

Helgi Hrafn kom síðar í pontu og tók undir gagnrýni Helgu Völu. Hann sagðist ekki skilja að ríkislögreglustjóri fái 1,7 milljónir króna á mánuði í tvö ár þegar hann lýkur störfum og „sagan er sú að hann hafi sagt upp“. 

Áslaug Arna sagði að Haraldur hefði ekki sagt stöðu sinni lausri heldur komið að máli við sig um möguleg starfslok og mögulegan starfslokasamning. Hún sagði enn fremur að þrátt fyrir áðurnefnda vantrauststillögu væri mikilvægt að nýta þekkingu Haraldar á lögreglunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert