„Mínarettan er táknræn, rétt eins og kross á kirkjum,“ segir Karim Askari, stjórnarformaður Stofnunar múslima á Íslandi.
Stór og vegleg mínaretta, eða bænaturn, er risin við mosku félagsins í Skógarhlíð. Mínarettan er rúmir þrettán metrar á hæð og alls fóru yfir 1.200 kíló af stáli í hana. Hún er ekki fullgerð því enn á eftir að setja á hana álklæðningu, skraut og ljósabúnað á toppnum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta verður mjög fallegt og táknrænt fyrir það frelsi og umburðarlyndi sem hér ríkir í garð allra trúfélaga. Múslimar á Íslandi lifa í sátt og samlyndi við aðra,“ segir Askari, sem segir að mínarettan hafi fyrst og fremst það hlutverk að auka sýnileika moskunnar.