57 milljóna starfslokasamningur

Haraldur Johannessen, fráfarandi ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen, fráfarandi ríkislögreglustjóri. mbl.is/Hari

Kostnaðarmat starfslokasamnings ríkislögreglustjóra með launatengdum gjöldum nemur 56,7 milljónum króna en án launatengdra gjalda 47,2 milljónum.

Þetta kemur fram í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn fjárlaganefndar Alþingis vegna starfsloka Haraldar Johannessen, að því er segir á vef Stjórnarráðs Íslands. 

Til samanburðar næmu laun ríkislögreglustjóra út skipunartímann 80,5 milljónum króna án launatengdra gjalda en 104,6 milljónum króna með launatengdum gjöldum. Fjárhæðir samningsins hljóða því upp á 54% af kostnaði við laun út skipunartímann að teknu tilliti til launatengdra gjalda.

Í svarinu kemur einnig fram að Haraldur á að baki langan embættisferil og nýtur í því ljósi mikilla réttinda. Hann var síðast endurskipaður 2018 og við samningsgerð voru 46 mánuðir eftir af skipunartímanum að teknu tilliti til biðlauna og orlofsréttar.

Embættismenn njóta sérstaklega ríkrar réttarverndar á grundvelli 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða í lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna. Frumkvæðið kom frá honum sjálfum og var enginn annar grundvöllur að starfslokum.

Ekki er gert ráð fyrir sérstakri fjármögnun heldur rúmast samningurinn innan fjárveitinga málaflokksins.

Frumkvæði Haraldar lykillinn að lausninni

„Ósk HJ um lausn og starfslokasamning verður að skoða í ljósi allra aðstæðna. Upp var komin erfið staða innan lögreglunnar (vantraustsyfirlýsing). HJ ákvað að stíga fram og það frumkvæði er lykill að lausn þess vanda ásamt áformum um sérstakt lögregluráð,“ segir í svarinu.

Vegna umræðna í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi og í fjölmiðlum í gær kemur fram að embættismanni verði ekki vikið úr starfi nema nema lögmætar og mjög ríkar ástæður séu fyrir hendi. Haraldur hafi ekki brotið af sér með neinum þeim hætti að heimilt væri að víkja honum úr starfi.

„Þar sem ráðherra var ekki lögum heimilt að víkja HJ úr starfi varð frumkvæðið að koma frá honum sjálfum. Það var enginn annar grundvöllur að starfslokum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert