Vill eingöngu húsdýr í Húsdýragarðinn

Selirnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.
Selirnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum. mbl.is/Eggert

„Mér finnst Húsdýragarðurinn í dag ekki í samræmi við tíðarandann, fólki er almennt umhugað um velferð dýra og dýravernd,“ segir Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, við mbl.is. Hún lagði fram tillögu í borgarráði í morgun þess efnis að í Húsdýragarðinum skyldi eingöngu haldin húsdýr sem unnt væri að bjóða lífvænleg skilyrði. Jafnframt verði ekki haldin villt spendýr, fuglar, skriðdýr og önnur dýr sem þrífast best í villtri náttúru. 

Áfram yrði þó unnið að verkefninu „villt dýr í hremmingum“ í samvinnu við Náttúrufræðistofnun. Það miðar að því að hlúa að villtum dýrum sem lent hafa í hremmingum og sleppa þeim aftur til sinna heimkynna.

„Margir eru ósáttir við þetta fyrirkomulag og leggja ekki leið sína í garðinn vegna þessa. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að við gerum breytingar,“ segir Hildur. Hún vísar meðal annars til þess að lífsskilyrði selanna í garðinum hafa verið gagnrýnd þar sem þeir svamla um í lítilli laug.  

Ef þessi tillaga yrði samþykkt telur Hildur ekki líklegt að aðsóknin myndi minnka. Fjölskyldugarðurinn hefur ekki síður aðdráttarafl en Húsdýragarðurinn. Hildur setur einnig spurningarmerki við að Reykjavíkurborg skuli yfirhöfuð eiga og reka Fjölskyldu- og húsdýragarð, það sé ekki endilega hlutverk sveitarfélags. Henni þætti réttast að reksturinn yrði boðinn út. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert