Mótmæla áfram og krefjast afsagnar Kristjáns Þórs

Frá mótmælum á Austurvelli fyrir tveimur vikum.
Frá mótmælum á Austurvelli fyrir tveimur vikum. mbl.is/Eggert

Kröfu- og mótmælafundur Stjórnarskrárfélags Íslands stendur nú yfir á Austurvelli og er framhald af mótmælafundi sem fór fram á Austurvelli laugardaginn 23. nóvember síðastliðinn. Yfirskrift fundarins er „Lýðræði – ekki auðræði“ og mörg samtök hafa lýst yfir stuðningi við málstaðinn.

Kröfurnar eru þrjár. Í fyrsta lagi að Kristján Þór Júlíuson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segi tafarlaust af sér embætti. Í öðru lagi að Alþingi lögfesti nýja og endurskoðaða stjórnarskrá sem var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 og í þriðja lagi að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna renni í sjóði almennings til uppbyggingar samfélagsins og til að tryggja mannsæmandi lífskjör allra.

Kröfurnar eru þrjár.
Kröfurnar eru þrjár. Ljósmynd/Aðsend

Víðtækur stuðningur

Kröfufundinn styðja stéttarfélögin VR og Efling, Öryrkjabandalag Íslands, Gagnsæi – samtök gegn spillingu, Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá hópur almennra. Þá hefur Verkalýðsmálaráð Samfylkingarinnar ákveðið að styðja kröfur fundarins.

Drífa Snædal, formaður ASÍ, Bragi Páll Sigurðarson rithöfundur og Þorgerður María Þorbjarnardóttir frá Ungum umhverfissinnum flytja ræður auk fulltrúum Krakkaveldis.

Katrín Oddsdóttir, formaður Stjórnarskrárfélagsins og einn skipuleggjanda, segir í tilkynningu að rúmlega 4600 manns hafi mætt á Austurvöll laugardaginn 23. nóvember síðastliðinn og tekið undir kröfurnar:

„Þegar eitt fjölmennasta stéttarfélag landsins bætist í hópinn, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, er ljóst að afar stór hluti landsmanna styðji kröfurnar okkar. Slíka samstöðu og fjölda getur engin ríkisstjórn hunsað eða horft fram hjá.”

„VR hvetur almenning til að sýna samstöðu gegn spillingu og mæta á Austurvöll,“ var haft eftir Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR, í tilkynningu.

Frekari upplýsingar má nálgast á Facebook-síðu mótmælafundarins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert