Spáð er einu versta veðri vetursins hingað til á þriðjudaginn og ráðleggur Veðurstofa Íslands fólki að fylgjast vel með spám. Gul viðvörun gildir fyrir allt vestanvert landið þann dag og er jafnvel spáð ofsaveðri á sumum svæðum.
Spáð er norðanstormi eða roki á höfuðborgarsvæðinu, 20-28 metrum á sekúndu. Hvassast verður vestantil. „Samgöngutruflanir eru líklegar á meðan veðrið gengur yfir og truflanir á flugsamgöngum. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdasvæðum. Búast má við hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og líkur á að smábátar geti laskast eða losnað frá bryggju. Fólki er bent á að ganga vel frá lausum munum og sýna varkárni,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Hvað Suðurland varðar er spáð norðan- eða norðvestanstormi eða roki, 20-28 m/s, og hvassast vestantil á svæðinu. Búast megi að sama skapi við samgöngutruflunum og einnig lokunum á vegum. Hætta sé á foktjóni og ekkert ferðaveður á meðan viðvörunin er í gildi. Er fólki bent á að ganga frá lausum munum og sýna varkárni. Hliðstæð spá er fyrir Faxaflóasvæðið en þar er jefnvel gert ráð fyrir ofsaveðri og sama er að segja um Breiðafjarðarsvæðið, Vestfirði og Norðurland vestra.