Útlit er fyrir að norðanáttin verði svo sterk á morgun að Esjan, sem alla jafna veitir ágætisskjól, geri það ekki lengur. Fyrir vikið myndast eins konar fjallabylgja sem brotnar frá Esjunni yfir norðurströndina á Seltjarnarnesinu.
Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur í samtali við mbl.is.
Svona lagað gerist ekki oft, líklega síðast í „Höfðatorgsveðrinu“ 2. nóvember 2012. Einnig nefnir Einar veturinn 1966.
Við þessar aðstæður ýfist sjórinn upp í Kollafirði vegna vindsins og aldan skellur á Sæbrautinni. Ef veðurspár ganga eftir, sem miklar líkur eru á að sögn Einars, mun þetta hitta nokkuð á flóðið því hásjávað verður um fimmleytið en þá hefur óveðrið brostið á með miklum þunga.
Einar, sem hefur skoðað öldulíkan Veðurstofu Íslands, reiknar með því að sjór verði ekki það eina sem fer upp á Sæbrautina heldur einnig þari og jafnvel grjót.
„Ég hef í rauninni ekki séð svona mikið norðanveður í dálítið langan tíma,“ segir Einar, sem telur vesta veðrið ekki munu ná mikið inn á nesið. Það nái kannski upp á Skólavörðuholt og langleiðina á Miklubraut en ekki mikið lengra.
Fyrir norðan, þar sem vindurinn kemur af úthafi, verður flóðið annað kvöld um klukkan 20 til 22. Útlit er fyrir að ölduhæðin verði 10 til 11 metrar, jafnvel meiri, og skella öldurnar meðal annars á höfnunum á Sauðárkróki og Siglufirði.
„Það verður skaplegra en hvasst þó annars staðar, en svona víðtækt norðanveður fyrir landið allt eins og þetta — það eru orðin ansi mörg ár síðan það gerði slíkt.“
Hann reiknar með að veðrið nái hámarki síðdegis um vestanvert landið og á höfuðborgarsvæðinu seinna, eða á milli 18 og 21. Norðaustan- og austanlands verður veðrið einnig mjög slæmt en líklega verður það á miðvikudaginn.