Veðrið hefur færst aðeins austar

Versta veðrið hefur færst aðeins til austurs þegar liðið hefur …
Versta veðrið hefur færst aðeins til austurs þegar liðið hefur á spátímann. Kort/Veðurstofa Íslands

Ofsaveðrið sem allt stefnir í að gangi yfir landið á morgun og á miðvikudaginn á rætur sínar að rekja til óvenjudjúprar lægðar sem er nú við suðvesturströndina og dýpkar hratt. Kemur hún með mjög rakt loft suður úr höfum sem kælist og þéttist hér yfir kaldari sjó. Lægðin fær auk þess ákveðið orkuskot frá annarri lægð sem er sunnar.

Á sama tíma er hæð yfir Grænlandi sem ýtir á móti lægðinni, þannig að lægðin mun hanga yfir Austurlandi og valda því að veðrið vestan megin við hana verður alltaf verra og verra. Það verður svo um síðdegið á morgun sem lægðin verður gerð afturreka og veðrið mun fara að ganga niður.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að um sé að ræða óvenjudjúpa lægð sem muni skella harðri norðanátt yfir vestari hluta landsins með miklum veðrabirgðum. Hún segir óvenjulegt að lægðir liggi svona lengi yfir landinu, en að hæðin sem komi yfir Grænland valdi þessu.

Hún segir að ef spáin rætist sé um mannskaðaveður að ræða, en gert er ráð fyrir allt að 33 m/s á Norðurlandi vestra og 28-30 m/s á Vestfjörðum, Breiðafirði, Faxaflóasvæðinu og Norðurlandi eystra. Hún segir að eftir því sem liðið hafi á spátímann hafi versta veðrið færst aðeins í austur, en það hefur meðal annars þau áhrif að veðurofsinn á höfuðborgarsvæðinu verður ekki alveg jafn slæmur og gert hafði verið ráð fyrir. Hún segir þetta hins vegar aðeins sjónarmun og veðrið verði enn mjög slæmt. Á móti kemur að nú er verra veðri spáð á Húnaflóa og í Skagafirði að sögn Elínar.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur.
Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur. mbl.is/Júlíus

Til viðmiðunar er 32 m/s sami vindstyrkur og var í 12 vindstigum áður fyrr. Var það hæsta stig sem Veðurstofan notaðist áður við og í skilgreiningu segir að allt lauslegt fjúki í slíku veðri. „Allt lauslegt fýkur, þar á meðal möl og jafnvel stórir steinar. Kyrrstæðir bílar geta oltið eða fokið. Heil þök tekur af húsum. Skyggni oftast takmarkað, jafnvel í þurru veðri.“

Í viðvörun Veðurstofunnar á Facebook er bent á hættu fyrir báta í höfn í þessu veðri, en Elín segir að búast megi við stórstreymi og hækkandi sjávarstöðu vegna áhlaðanda og að fyrir norðan land geti orðið allt að 10 metra ölduhæð þegar veðrið gengur yfir. Segir hún þetta því koma allt á sama tímanum og að smábátar í höfnum geti farið illa. Vísar hún til þess að árið 2012 hafi trilla sokkið í smábátahöfninni í Reykjavík í Höfðatorgsveðrinu svokallaða, en Elín segir að líkja megi veðrinu núna að nokkru leyti við það veður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert