Svanhildur Hólm Valsdóttir, aðstoðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra og fjölmiðlakona, er meðal umsækjenda um stöðu útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins.
Þetta staðfestir Svanhildur í samtali við Vísi. Ríkisútvarpið tilkynnti í dag að 41 hefði sótt um stöðuna en umsóknarfrestur rann út á miðnætti í gær eftir að hann var framlengdur um viku.
Svanhildur hefur verið aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar frá 2012 en áður var hún framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hún er lögfræðingur að mennt en starfaði um árabil við fjölmiðla, bæði hjá RÚV og Stöð 2.
Ríkisútvarpið hyggst ekki gefa út lista með nöfnum umsækjenda, en Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, leik- og fjölmiðlakona, og Elín Hirst hafa báðar tilkynnt að þær hafi sótt um stöðuna.