4-5 metra skaflar á tveimur klukkustundum

Björgunarsveitarmenn á Skagaströnd hafa síðasta sólarhringinn reglulega þurft að brjóta ís og moka upp úr smábátum í höfninni í bænum, en talin var hætta á að bátarnir færu niður þar sem snjór og ís þyngdi þá mikið. Reynir Lýðsson, formaður björgunarsveitarinnar Strandar á Skagaströnd, segir í samtali við mbl.is að menn séu aftur á leið út núna, en þeir komu síðast inn klukkan þrjú í nótt eftir aðra törn.

„Við vorum að moka megnið af gærdeginum og erum að fara aftur í þetta núna,“ segir hann, en upp úr þrjú hafi ofankoman minnkað örlítið. Hann segir að tekist hafi að halda öllum bátum á floti, en um er að ræða 15-20 báta og voru 12-14 manns að vinna við moksturinn í gær og í nótt.

Segir Reynir að fyrst hafi verið um ísingu að ræða sem hafi þurft að brjóta af, en svo hafi snjór bæst við og hafi tekið við mikill mokstur.

Talsvert hvassviðri var á Skagaströnd eins og víðar á Norðvesturlandi, en Reynir segir að ekkert foktjón hafi komið upp þar. „Þetta hefur verið helvítis rok og læti, en við höfum séð þetta áður.“

Til að setja snjómagnið í samhengi segir Reynir að þegar þeir hafi farið í fyrsta skiptið í gær að moka úr bátunum hafi á tveimur klukkustundum orðið til 4-5 metra háir skaflar og hafi þeir þurft að fara aðra leið til baka en vanalega þegar mokstri var lokið þá. Þá hafi snjóað upp allar hurðir á heimili hans og menn þurfi að moka sig inn og úr húsum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert