Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði á Alþingi hvers vegna ríkisstjórnin mismuni fólki við greiðslu jólabónuss.
Hann sagði að í boði ríkisstjórnarinnar fái foreldrar langveikra barna um 59 þúsund krónur í jólabónus, atvinnulausir fái um 83 þúsund krónur en eldri borgarar og öryrkjar um 44 þúsund krónur.
„Hvers vegna er verið að mismuna þessum hópi,“ sagði hann og hélt áfram um aldraða og öryrkja. „Setjið það í samhengi við 180 þúsund krónurnar sem við [alþingismenn] fáum sem er óskert. Þetta er skert alveg niður í núll.“
Hann sagði þetta líka gert við orlofsgreiðslur og að ekki gangi að segja að svona sé málum háttað því þannig hafi það alltaf verið.
„Þetta er þeim til háborinnar skammar,“ sagði hann um ríkisstjórnina og spurði hvar talið um jafnrétti væri því þessi tilhögun bitni mest á konum og börnum.