„Orðið mjög leiðinlegt ástand og erfitt“

Elín segir að þó nokkuð margir bændur séu með heimarafstöð …
Elín segir að þó nokkuð margir bændur séu með heimarafstöð eða rafala sem þeir geti tengt við fjósin svo hægt sé að halda áfram að mjólka kýrnar. mbl.is/RAX

„Þetta er orðið mjög leiðinlegt ástand og erfitt fyrir fyrir kýrnar. Þær þola ekki að vera ekkert mjólkaðar í langan tíma.“

Þetta segir Elin Nolsöe Grethardsdóttir, kynbótafræðingur og ráðgjafi í mjólkurgæðum hjá Auðhumlu. Send hefur verið út tilkynning til bænda í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum vegna mjólkursöfnunar sem hefst í fyrramálið þegar vegir hafa verið opnaðir.

Rafmagnsleysi hefur verið á svæðinu undanfarinn sólarhring og hafa bændur verið beðnir að láta vita ef kælirof hefur orðið vegna rafmagnsleysis. Hafi kælirof orðið skal hella mjólkinni niður og er óþarfi að mjólkurbíllinn komi við á þeim bæjum.

Einhverjar tilkynningar hafa borist um kælirof, en illa hefur gengið að ná í einhverja bændur þar sem fjarskipti liggja niðri, að sögn Elínar. „Það eru aðallega bú úti í Svarfaðardal. Þar er erfitt að ná í bændur því þar er enn rafmagns- og símasambandslaust. Það er búið að senda tölvupóst og sms-skilaboð en það er lítið um viðbrögð svo við verðum að meta þetta þegar við komum á staðinn á morgun.“

Borin von að handmjólka allar kýrnar

Elín segir að þó nokkuð margir bændur séu með heimarafstöð eða rafala sem þeir geti tengt við fjósin svo hægt sé að halda áfram að mjólka kýrnar. Það séu þó ekki nógu margir og hún hafi heyrt í bændum síðdegis í dag sem ekki höfðu mjólkað síðan kvöldið áður.

Ekki nokkur leið sé að handmjólka allar kýrnar. „Það er ekki nokkur leið, sérstaklega ef þú ert með fjós þar sem eru 50 kýr, eða þótt þær séu ekki nema 30, þá er alveg borin von að handmjólka þær allar. Það er kannski hægt að tutla úr þeim sem eru nythæstar, með mesta mjólk, til að létta af þrýstingnum en það er ekki nokkur leið að handmjólka svona stórar hjarðir. Það verður bara að bíða og gera sitt besta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert