Fimm ráðherrar úr ríkisstjórn Íslands komu á Dalvík núna rétt í þessu til að kynna sér aðstæður eftir ofsaveðrið í vikunni og rafmagns- og fjarskiptaleysi í framhaldi af því.
Ráðherrarnir eru þau Katrín Jakobsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar, tók á móti ráðherrunum í ráðhúsinu, en fundurinn var haldinn við kertaljós. Sagði Katrín sveitarstjóri það táknrænt í ljósi rafmagnsleysisins, þótt rafmagn væri nú komið á bæinn.
Fór hún í framhaldinu yfir stöðu mála. „Staðan fer batnandi,“ sagði hún og þakkaði sérstaklega fyrir komu Þórs í gær, en hann framleiðir nú rafmagn fyrir stóran hluta bæjarins. Sagði hún það hafa verið tilfinningaþrungna stund að sjá skipið sigla inn í höfnina á hádegi í gær og vita að rafmagn færi að komast á aftur.
Enn eru þó köld svæði að sögn Katrínar, en það á við í Skíðadal og Svarfaðardal, auk þess sem einhver hús eru enn án rafmagns norðan við Dalvík. Hafa nokkur hús á þessu svæði verið rýmd, en miklir kuldar eru fram undan.
„Fjarskiptamálin eru svo sér kapítuli,“ sagði Katrín og sagði að það hefði verið hræðilegt að upplifa að hafa ekkert samband, hvorki síma- né útvarpssamband og verið klippt frá umheiminum.
Þá sagði hún jafnframt allt atvinnulíf hafa verið stopp í sveitarfélaginu undanfarna daga.
Ráðherrarnir munu í kjölfar fundarins, með sveitarstjóra og fleiri viðbragðsaðilum og stjórnendum sveitarfélagsins, skoða raftengingu Þórs, kynna sér starf björgunarsveitarinnar og skoða þær skemmdir sem urðu á línum Landsnets og kynna sér vinnu við að koma rafmagninu aftur á Dalvíkurlínu.