„Klárt að við sjáum hér veikleika afhjúpast“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Ingi Jóhannsson, sveitarstjórnar- og samgönguráðherra, segist hafa áhyggjur af því að búið sé að þynna út of mikið mannskap hjá opinberum stofnunum á landsbyggðinni. Þá kallar hann eftir umræðu um að virkja eigi í hverjum landshluta til að auka orkuöryggi og skoða þurfi ákvæði um landsskipulag til að Alþingi og ríkið hafi aukið vægi í ákvarðanatöku um lagningu innviða. Þá segir hann alvarlegt og óásættanlegt að öll fjarskipti geti farið út í svona langan tíma.

„Aldrei almennilega tilbúin“

Sigurður kom ásamt fjórum öðrum ráðherrum til Dalvíkur í dag til að skoða aðstæður eftir ofsaveðrið og tilheyrandi rafmagnsleysi. Í samtali við mbl.is eftir heimsóknina sagði Sigurður að það væri alltaf sterkari og meiri upplifun að sjá hlutina með eigin augum. „Ekki síst að hitta fólkið og finna þann kraft sem hér er að störfum. Hér standa allir saman og vinna þrekvirki,“ segir hann. „Hér eru náttúrlega hetjur að störfum sem vinna baki brotnu við að koma rafmagni í gang og hita á hús,“ bætir hann við um þá fjölmörgu sem hafa undanfarna daga komið að því að koma sveitarfélaginu aftur á réttan kjöl.

Spurður út í stöðu innviða og almannavarnakerfisins segir Sigurður að það sé margt sem hafi verið gert til að undirbúa óveður og tjón sem af hlotnast. „En við erum aldrei almennilega tilbúin fyrir þær náttúruhamfarir sem hér geta orðið,“ segir hann.

Áhyggjur af því að mannskapur á landsbyggðinni hafi verið þynntur of mikið

„Það er alveg klárt að við sjáum hér veikleika afhjúpast,“ segir Sigurður og vísar til þess að raforkukerfið hafi brugðist og fjarskiptakerfið í framhaldi af því. „Þar geta verið atriði eins og skortur á innviðum, að það vanti varaafl, rafstöðvar. Ég hef áhyggjur af því að við séum búin að þynna út of mikið mannskapinn hjá opinberum stofnunum úti á landi. Ég hef líka sagt að það þurfi að taka þá umræðu hvort það þurfi að vera meiri orkuöflun, virkjun í hverjum landshluta, þannig að við treystum ekki um of á langa flutninga. Þurfum líka að skoða flutningsleiðirnar og þau vandamál sem þar hafa verið.“

Smári Jónas­son, for­stöðumaður netþjón­ustu hjá Landsneti,sýnir ráðherrum tenginuna milli varðskipsins …
Smári Jónas­son, for­stöðumaður netþjón­ustu hjá Landsneti,sýnir ráðherrum tenginuna milli varðskipsins Þórs og í land. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segir hann að mögulega þurfi að skoða ýmis lög og skipulag í þessu samhengi. „Ákvæði um landsskipulag er eitthvað sem við höfum ekki notað til að vera með sterkari skoðun Alþingis og ríkisins um það hvar vegir eiga að vera eða meginflutningsleiðir,“ segir hann og nefnir dæmi um Teigsskóg eða byggðarlínu á Norðurlandi sem hafi tafist mjög.

Fjarskipta- og rafmagnsleysið óásættanlegt

Fjarskiptamál heyra undir ráðuneyti Sigurðar, en símasamband, netsamband, tetra-samband og útvarpssamband datt allt niður á fjölmörgum stöðum á landinu, meðal annars á Dalvík. Voru íbúar þar í raun sambandslausir í tvo sólarhringa. „Það er alvarlegt,“ segir Sigurður, en hann telur að rannsóknarnefnd almannavarna þurfi að skoða þessi mál. Nefnir hann sérstaklega að almannahlutverk RÚV hafi átt að vera mikilvægt á þessum stöðum. Það hafi hins vegar brugðist og hvorki náðst langbylgja eða frá öðrum sendum. „Það datt fyrst út og það er vandamál,“ segir hann.

Spurður hvort fjarskipta- og rafmagnsleysi í nokkra daga sé bara vandamál en ekki eitthvað verra en það tekur Sigurður undir og segir að það sé óásættanlegt. „Og við þurfum að gera allt sem við mögulega getum til að bregðast við, en þar virðist rafmagnið vera lykilatriðið.“

Vill láta skoða með arðgreiðslur orkufyrirtækja

Sigurður hefur áður viðrað hugmyndir um að nýta arðgreiðslur orkufyrirtækja til innviðauppbyggingar. Hann segir að Rarik hafi á undanförnum árum greitt um 300-500 milljónir í arðgreiðslur til ríkissjóðs. „Kannski hefði þeim peningum betur verið borgið í uppbyggingu á þessum kerfum okkar og það sama gæti gilt um Landsvirkjun,“ segir hann. Spurður hvort einhugur ríki um það í ríkisstjórn segist hann ekki vita það, en þetta sé eitthvað sem þurfi að ræða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert