„Allur okkar mannskapur á fullu“

Að störfum í Hrútatungu.
Að störfum í Hrútatungu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um 80 til 90 manns á vegum RARIK vinna að því hörðum höndum að koma rafmagni aftur á fyrir norðan eftir að óveðrið gekk yfir landið fyrr í vikunni.

„Allur okkar mannskapur er enn á fullu úti. Við kláruðum að mestu Húnavatnssýsluna gömlu í gær en nokkrir bæir á Vatnsnesinu fóru því miður aftur út og það verður unnið að því í dag,“ segir Helga Jóhannsdóttir, formaður neyðarstjórnar RARIK.

Hún bætir við að þau séu langt komin með Norðurland vestra.

„Það er búið að vera mikið álag á okkar fólki í langan tíman en fólk fer ekki heim fyrr en þetta er búið,“ segir hún.

Alls eru fjórir bærir á Vatnsnesi rafmagnslausir og verið er að koma spennu aftur á í Svarfaðardalnum með varaafli frá Dalvík.

Á Skaga, norðan við Gauksstaði, voru fjórir bæir komnir með rafmagn en duttu svo aftur út. Vinna stendur yfir við Tjörneslínu. 

Tré utan í rafmagnslínunni

Vandræði hafa verið með rafmagn í Öxnadal og Hörgárdal og hefur það komið en dottið aftur út þar. Skógur í Öxnadalnum fyrir ofan veginn í Þelamörk hefur valdið starfsfólki RARIK vandræðum. Þar eru tré utan í rafmagnslínunni sem er erfitt að ná tökum á. „Þetta er ekki algengt vandamál en það hlaut að koma að því,“ segir Helga.

Rafmagn er komið á í Heggstaðanesi og Bárðardal. 

Í tilkynningu á vefsíðu RARIK kemur fram að rafmagnslaust sé ennþá á Hafsteinsstöðum, Reynistað, Stóru-Gröf, Holtsmúla og Stóru-Gröf ytri í Skagafirði. Búið er að reisa staura en eftir er að strengja víra. Búast má við rafmagnsleysi í nágrenninu þegar þetta kerfi verður tengt við netið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert