Hestvagn Bettinu Wunsch verður dreginn áfram með hefðbundnum hætti í Jólaþorpinu í Hafnarfirði, að undanskildum deginum í dag. Þetta segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, í samtali við mbl.is. Bærinn hefur ekki hugsað sér að skera niður ferðir vagnsins.
„Það er engin ákvörðun sem liggur fyrir annað en það að það komu mjög alvarlegar athugasemdir frá eigendum [Vegan]búðarinnar um þetta. Starfsmenn bæjarins ræddu við eigendur verslunarinnar og aðilann sem sér um hestaferðirnar og það varð að samkomulagi að hefja ferðirnar í dag seinna en vanalega,“ segir Rósa.
„Svo ætlum við að halda okkar striki með þetta það sem eftir lifir Jólaþorpsins enda er þetta feikivinsælt í Jólaþorpinu okkar eins og í flestum jólaþorpum erlendis.“
Málið er þannig vaxið að Bettina fékk upplýsingar um að hún fengi ekki að aka vagni sínum um þorpið á meðan Veganbúðin, sem stendur við Strandgötu þar sem vagninn ferðast helst, stendur opin. Veganbúðin hafði gert athugasemdir vegna hestvagnsins á grundvelli þess að hann væri tímaskekkja.
Athugasemdirnar sneru að aðbúnaði hestanna í Jólaþorpinu. Ekki er útlit fyrir að Hafnarfjarðarbær takmarki ferðir hestvagnsins frekar.
„Það þyrfti þá einhver allt önnur umræða að fara af stað og við höfum engar forsendur til þess þó að mjög alvarlegar ásakanir á hendur bænum hafi komið fram. Við ákváðum að efna til þessa fundar með hlutaðeigandi og úr varð að þetta yrði svona í dag en svo munum við bara halda okkar striki,“ segir Rósa.