Rafmagn er komið á í hluta Svarfaðardals og stefnt að því að dalurinn verði allur tengdur síðar í dag. Þetta segir Helga Jóhannsdóttir, formaður neyðarstjórnar RARIK. Vestari hluti dalsins og Skíðadalur séu nú tengdir en reisa þurfi brotinn staur og huga að ísingu áður en hægt er að spennusetja afganginn. Þá eru Íbúar Öxnadals og Hörgárdals nú komnir með rafmagn.
Enn eru um 200 heimili án rafmagns, en að sögn Helgu stendur vinna yfir við Tjörneslínu, á Melrakkasléttu og Glaumbæjarlínu. Hún segir vinnuna ganga samkvæmt áætlun. „Þetta gengur hægt en örugglega, en auðvitað myndi maður vilja sjá þetta ganga hraðar.“
Búið er að tengja aðveitustöðvar á Lindarbrekku og Kópaskeri við flutningskerfi og segir Helga að því hafi verið slökkt á vararafstöðvum. „Það breytir ekki svo miklu fyrir notendur, sem voru þegar tengdir, en varaaflskeyrsla er auðvitað óöruggari og því gott að fá þá aftur inn á flutningskerfið.“
Fyrsta stæða af 32 sem skemmdust í Dalvíkurlínu er nú komin upp, en þar vinna starfsmenn Landsnets að endurbótum.