Rafmagn er komið aftur á í Skagafirði, þar með talið á Sauðárkróki og Hofsósi, eftir að rafmagnslaust varð þar að nýju snemma í morgun.
Samkvæmt Steingrími Jónssyni, deildarstjóra netreksturs hjá Rarik á Norðurlandi, virðist hafa komið högg á kerfið þegar tengivirkið í Hrútatungu fór út í nótt sem hafi haft áhrif víðar.
Samkvæmt tilkynningu frá Landsneti kom fjöldi manns að stórri aðgerð í Hrútatungu í nótt þar sem unnið var að hreinsun á tengivirkinu. Undir morgun fór virkið hins vegar aftur út vegna seltu en er aftur komið í rekstur.
Enn er unnið að spennusetningu í Blöndudal og Svartadal en fyrir utan það eru svo til til öll heimili á veitusvæði RARIK komin með rafmagn. Margir eru þó tengdir varaaflsvélum. Sumarbústaðir og heimili sem hafa verið rýmd gætu enn verið rafmagnslaus. Rarik biður notendur sem eru tengdir varaafli að spara rafmagn eins og kostur er.
Rarik mun þurfa að keyra varaafl þangað til búið er að gera við flutningskerfi Landsnets. Enn er mikið af bilunum í dreifikerfinu sem taka mun nokkra daga að lagfæra og búast má við truflunum á afhendingu rafmagns á meðan þetta ástand varir. Einnig má búast við mögulegum skömmtunum á rafmagni þegar atvinnulífið fer í gang eftir helgina, að því er segir í tilkynningu.
Fréttin hefur verið uppfærð.