Viðbragðsaðilar unnu „kraftaverk“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Dalvík fyrir helgi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Dalvík fyrir helgi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að ofsaveðrið sem gekk yfir landið í síðustu viku hafi ekki verið neitt „eðlilegt“ og að horfa þurfti aftur til ársins 1973 til að finna álíka norðanveður.

Þetta kom meðal annars fram í máli Katrínar Jakobsdóttur þar sem hún flutti munnlega skýrslu um afleiðingar óveðursins í síðustu viku eftir beiðni þingmanna Miðflokksins þess efnis.

„Þetta var ekkert venjulegt veður en það breytir því ekki að við verðum að vera undirbúin og þetta minnir okkur á hvar við búum,“ sagði Katrín.

Forsætisráðherra sagði skelfilegt þegar ofsaveður valdi mannsskaða, líkt og varð í síðustu viku. Það tjóni verði aldrei bætt.

Rafmagnslaust í þrjá sólarhringa

Auk þess nefndi Katrín að veraldlegt tjón hefði orðið og nefndi þá sérstaklega rafmagnsleysið. „Þar sem verst lét var rafmagnslaust í þrjá sólarhringa,“ sagði Katrín og bætti við að enn væri mikið af bilunum og búast mætti við einhverjum skömmtunum á rafmagni.

Eftir heimsóknir norður í síðustu viku er ljóst að við eigum ótrúlegan kraft í samfélaginu því viðbragðsaðilar unnu margir hverjir þrekvirki í sínum störfum. Þeir unnu í raun og veru kraftaverk,“ sagði Katrín.

Ekkert eðlilegt veður og álag

Hún sagði að um 800 björgunarsveitarmenn hefðu verið við störf undanfarna daga þar sem leyst hefðu verið yfir þúsund verkefni. Þegar verst lét í síðustu viku hefðu neyðarlínunni borist um 40% fleiri símtöl en venjulega. „Þetta var ekkert eðlilegt veður og ekkert eðlilegt álag á fólki.“

Katrín sagði að við værum háðari rafmagni nú en áður, meðal annars vegna tæknibreytinga, og það væri eitthvað sem þyrfti að átta sig á. „Rafmagnsleysið hefur ótrúlega umfangsmikil áhrif, ekki bara á hitun heldur líka fjarskipti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert