Byggðarráð Skagafjarðar hefur ákveðið að styrkja björgunarsveitirnar þrjár í sveitarfélaginu um samtals þrjár og hálfa milljón króna.
Hver sveit fær eina milljón króna í sinn hlut og að auki fær Skagfirðingasveit hálfa milljón vegna umfangs stjórnstöðvar.
Tilefnið er gott starf björgunarsveitanna þegar óveðrið gekk yfir Skagafjörð og víðar um landið í síðustu viku. „Það er ómetanlegt fyrir sveitarfélag að eiga að sjálfboðaliðasveitir eins og björgunarsveitirnar sem á hvaða tímum og aðstæðum sem er, eru tilbúnar að fara til aðstoðar og leggja jafnvel líf og heilsu að veði,“ segir í fundargerð byggðarráðs Skagafjarðar.
Ráðið þakkar einnig íbúum sveitarfélagsins fyrir að virða viðvaranirnar sem voru gefnar út og gera viðeigandi ráðstafanir sem auðvelduðu vinnu viðbragðsaðila.
Byggðaráð þakkar einnig starfsmönnum RARIK í Skagafirði fyrir ósérhlífni í þeirra störfum undanfarna daga og segir ljóst að fjölga þurfi í starfsliði RARIK á Sauðárkróki.
„Í samningi um sölu Rafveitu Sauðárkróks til RARIK voru gefin fyrirheit um fjölgun starfa og frekari innviðabyggingu sem ekki hefur gengið eftir hingað til. Þvert á móti hefur starfsfólki fækkað. Byggðarráð samþykkir að fela sveitarstjóra að óska eftir fundi með stjórn RARIK sem allra fyrst,“ segir í fundargerðinni.