Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leitar ökumanns sem ók gráleitum jepplingi á kyrrstæða brúna skutbifreið á gatnamótum Laufásvegar og Njarðargötu í Reykjavík um hálftvöleytið í dag.
Í tilkynningu frá lögreglu segir að ekki sé víst að ökumaður jepplingsins hafi orðið þess var, en bifreið hans var ekið strax af vettvangi. Í aðdragandanum ók tjónvaldurinn Njarðargötu í norðaustur, en beygði síðan til hægri og ók Laufásveg í suður, með fyrrgreindum afleiðingum.
Lögreglan biður umræddan ökumann um að gefa sig fram, en hafi aðrir orðið vitni að óhappinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000. Einnig má senda upplýsingar um málið í tölvupósti á netfangið gunnar.runar@lrh.is eða í einkaskilaboðum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á Facebook.