Lyfjanotkun megi ekki leiða til skertra tækifæra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir að hún muni beina því til embættis ríkislögreglustjóra að skoða þau viðmið sem stuðst er við varðandi inngöngu í starfsnám í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri.

„Þau verður að setja í nútímalegra horf,“ segir, dómsmálaráðherra í færslu á Facebook, en tilefni skrifa hennar er umfjöllun um mál Ólafíu Krist­ín­ar Norðfjörð, fyrsta árs nem­anda í lög­reglu­fræðum við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri, sem fékk ekki inn­göngu í starfs­námið vegna inn­töku kvíðalyfja.

„Mikil vitundavakning hefur átt sér stað í samfélaginu hvað varðar andleg veikindi á borð við þunglyndi og kvíða. Stigin hafa verið mörg framfaraskref í að auka þjónustu og bjóða upp á fjölbreyttari úrræði til að grípa fólk á fyrsta stigi vandans. Það að þurfa að notast við lyf á einhverjum tímapunkti má ekki verða til þess að viðkomandi njóti ekki sömu tækifæra og aðrir þegar kemur að menntun eða atvinnu,“ segir Áslaug Arna í færslu sinni.

Hún segir að hér verði að gæta sanngirni og að umsækjendur eigi rétt á einstaklingsbundnu mati hverju sinni. „Á það jafnt við hvort lyf séu tekin við kvíða eða þunglyndi, ADHD eða sykursýki, svo dæmi séu nefnd,“ skrifar ráðherra.

Hver umsækjandi þegar metinn

Í tilkynningu sem barst frá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar (MSL) sem hefur umsjón með starfsnáminu, segir að hver einstaklingur sé metinn með tilliti til þess hvort læknisfræðileg einkenni kunni að vera hamlandi í lögreglustarfi eða ekki. Viðmiðin eigi sér stoð í lögreglulögum og taki mið af sambærilegum viðmiðum á Norðurlöndunum.

Þar segir einnig að lækn­is­fræðilegt mat á um­sækj­end­um sé al­farið í hönd­um trúnaðarlækn­is MSL og að mennta­setrið fái eng­in lækn­is­fræðileg gögn eða ástæður fyr­ir því telji trúnaðarlækn­ir um­sækj­end­ur ekki upp­fylla skil­yrði.

Ljóst er af færslu ráðherra að hún telur þörf á því að taka þau viðmið sem eru notuð við matið til einhverrar endurskoðunar.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert