„Þetta bréf hans er algjör viðbjóður“

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Svo það fari ekki á milli mála þá snýst þessi pistill um að hrauna yfir Ása.“ Þannig hefst Facebok-færsla Björns Leví Gunnarsson, þingmanns Pírata, sem vandar Ásmundi Friðrikssyni sjálfstæðismanni ekki kveðjurnar.

Ásmund­ur sendi for­seta Evr­ópuráðsþings­ins bréf þar sem hann vakti at­hygli á því að Þór­hild­ur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hefði gerst brot­leg við siðaregl­ur fyr­ir alþing­is­menn, fyrst þing­manna.

„Þetta mál hingað til hefur verið einn risavaxinn farsi sem byrjaði á sjálfsagðri beiðni um rannsókn á aksturskostnaði þingmanna eftir svar sem ég fékk frá forseta Alþingis, þar sem sást að starfskostnaður þingmanna jókst tilfinnanlega rétt fyrir kosningar,“ skrifar Björn Leví.

Um­rædd um­mæli Þór­hild­ar Sunnu féllu í viðtali í Silfr­in­u 25. fe­brú­ar 2018. Komst hún svo að orði að uppi væri „rök­studd­ur grun­ur“ um að Ásmund­ur Friðriks­son hefði „dregið sér fé, al­manna­fé“ þegar rætt var um akst­urs­greiðslur til Ásmund­ar.

Ásmundur Friðriksson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.
Ásmundur Friðriksson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. mbl.is/Samsett mynd

Björn Leví segir að orð Þórhildar Sunnu frá því í Silfrinu eigi enn við og það sé enn tilefni til rannsóknar. Hann segir enn fremur að niðurstaðan, að Þórhildur Sunna hafi verið sek um brot á siðareglum þingmanna, væri augljóslega fáránleg miðað við gögn málsins.

„Ásmundur Friðriksson er lýðskrumari af verstu gerð. Heimsóknir hans út um allt kjördæmið eru ekkert annað en atkvæðaveiðar sem kosta himinháar upphæðir í akstursgreiðslur og skila engu í þingstörfin,“ skrifar Björn Leví og heldur áfram:

„Þetta bréf hans er algjör viðbjóður, ofan í allt það sem á undan hefur gengið þá dirfist hann til þess að leitast eftir refsingu á vegum Evrópuráðsþingsins gagnvart Sunnu. Þvílíka og aðra eins mannleysu (huglaus og ómerkilegur maður - http://islenskordabok.arnastofnun.is/islob?ord=27629) hef ég aldrei á ævi minni hitt,“ skrifar Björn Leví.

Hann segir að skilningsleysið gagnvart málinu í forsætisnefnd og siðanefnd hér á landi henti Ásmundi gríðarlega vel. 

„Það skilningsleysi er annað hvort einlægt, sem segir þá sitt um gáfur (eða skort á þeim) eða þá að það er viljandi, sem segir þá sitt um hans innri mann. Ég veit ekki hvort er verra, að vera svona heimskur eða vera svona vondur nema hvort tveggja sé.“

Björn Leví tekur fram að allt sé skrifað af yfirlögðu ráði og án reiði. „Þetta eru ekki orð sem ég segi í einhverju reiðikasti, hamrandi á lyklaborðið. Þetta eru orð sem ég vel, vel og vandlega, til þess að lýsa skoðun minni á þessu máli frá upphafi og hingað til.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert