Efling – stéttarfélag hefur slitið samningaviðræðum við Reykjavíkurborg. Bréf þess efnis var sent ríkissáttasemjara og Reykjavíkurborg eftir hádegi í dag.
Samninganefnd Eflingar, sem er skipuð fulltrúum starfsfólks borgarinnar, tók þessa ákvörðun eftir fund með samninganefnd Reykjavíkurborgar í gær, að því er segir í tilkynningu.
„Við höfum frá fyrsta degi tekið þátt í þessum viðræðum af fullri alvöru, í þeim tilgangi að fá loksins langþráða leiðréttingu á launum og vinnuaðstæðum fólksins okkar hjá borginni,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í tilkynningunni.
„Við höfum setið við samningaborðið frá því í vor og það er þyngra en tárum taki að segja frá því að því sem næst enginn árangur hefur náðst þar. Fundurinn í gær tók af öll tvímæli um það.“
„Við höfum í nærri níu mánuði reynt að brjótast gegnum raunveruleikarofið sem ríkir meðal hæst settu ráðamanna borgarinnar,“ bætir hún við. „Við höfum reynt að benda á hversu kaldranaleg stefna þeirra er gagnvart lægst launaða starfsfólkinu. Það hefur einfaldlega ekki tekist. Það er ótrúlegt að horfa upp á það hversu mikið virðingarleysi formaður samninganefndar Reykjavíkurborgar og borgarstjórinn sjálfur eru fær um að sýna eigin starfsfólki.“
Viðræðuslitin þýða að ríkissáttasemjari boðar fundi á tveggja vikna fresti, lögum samkvæmt, og færa stéttarfélagið nær boðun verkfalla.