Lagði til að Þórhildur yrði svipt réttindum

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, lagði til að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, yrði tímabundið svipt réttindum sínum á þingi Evrópuráðsins vegna álits forsætisnefndar Alþingis, byggðu á niðurstöðum siðanefndar þingsins, þess efnis að hún hefði gerst brotleg við siðareglur Alþingis.

Þetta stangast á við fullyrðingar Ásmundar í viðtali við Reykjavík síðdegis á miðvikudag. Þar var Ásmundur spurður hvort hann hefði kallað eftir að þingið myndi grípa til „einhverra aðgerða gegn henni“ og svaraði því neitandi. Einungis hefði staðið til að vekja athygli á því að Þórhildur Sunna hefði gerst brotleg við siðareglur.

Spurður út í þetta ósamræmi segir Ásmundur ljóst að „einhver brenglun“ hafi orðið í þessu hjá honum. „En ég nenni ekki að elta ólar við þetta þótt ég hafi mögulega farið fram úr mér.“

Ekki tilefni til aðgerða

Í svarbréfi Liliane Pasquier, forseta Evrópuráðsþingsins, sem mbl.is hefur einnig undir höndum, segir að þrátt fyrir úrskurð siðanefndar sé ekkert sem bendi til nokkurs forms spillingar eða brota á reglum Evrópuráðsþingsins. Því hyggist forsetinn ekki ætla að aðhafast.

Í samtali við mbl.is segir Þórhildur Sunna að hún hafi þegar talað opinskátt um úrskurð forsætisnefndar á vettvangi Evrópuráðsþingsins. „Ég sagði henni frá þessari takmörkun á tjáningarfrelsi mínu þegar málið kom upp og hef talað um þetta á fundum. En nú er í það minnsta formlega búið að vekja athygli á þessu,“ segir Þórhildur og bætir við að svipuð mál er varða takmörkun á tjáningarfrelsi þingmanna hafi verið til umræðu í Evrópuráðsþinginu í vetur.

Aðspurð segist hún ekki sjá framhald á málinu á vettvangi Evrópuráðsþingsins. „Ég hef hins vegar óskað eftir því að þetta mál verði tekið upp á vettvangi þingflokksformanna og forsætisnefndar.“

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka