Bilun í einni af aðalæðum hitaveitunnar í Reykjavík er alvarlegri en svo að hægt sé að bíða með viðgerð fram á kvöld. Þess vegna er að verða heitavatnslaust í Vesturbæ Reykjavíkur þessa stundina.
Reikna má með heitavatnsleysi fram á kvöld og jafnvel fram á nóttina, að því er segir í tilkynningu frá Veitum.
Fólki er bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni.
Nú um hádegið uppgötvaðist bilun í einni af aðalæðum hitaveitu Veitna í Reykjavík. Bilunin er rétt við Bústaðaveg í grennd við Valsheimilið og eru vegfarendur þar beðnir að sýna aðgát.
Starfsfólk Veitna brást þegar við og reyndi að draga úr lekanum með það fyrir augum að gera við lögnina í nótt. Bilunin er hinsvegar alvarlegri og lekinn úr lögninni meiri en að það sé hægt.
Æðin sem bilaði er ein af aðalæðum hitaveitunnar, 50 sentímetrar í þvermál, en ástæða þess að vatnsleysi verður svo víðtækt við viðgerðina er að slökkva þarf á dælustöð hitaveitunnar í Öskjuhlíð meðan á viðgerð stendur.