„Töluverð vegalengd frá Öxarfirði til Namibíu“

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hyggst sitja áfram í embætti. Hann hefur sagt sig frá fjórum málum er varða stjórnsýsluákærur á hendur Samherja, sem varða þó ekki umsvif fyrirtækisins í Namibíu. 

Ríkisstjórnin lagði til á fundi sínum á föstudag að Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, verði staðgengill Kristjáns Þórs við meðferð málanna. 

Kristján Þór segir ákvörðun sína um að segja sig frá málunum fjórum vegna vanhæfis byggða á þeim forsendum sem hann sett sér áður en hann settist á ráðherrastól. Þá segir hann ákvörðunina í takt við það sem þekkist úr stjórnmálasögunni.  

„Við þekkjum dæmi þess að aðrir ráðherrar núna í þessari ríkisstjórn og fyrri stjórnum óska á stundum eftir því að staðgenglar taki ákvarðanir í einstökum málum til þess að leyfa þeim að njóta vafans við slíka ákvörðun,“ sagði Kristján Þór í þjóðmálaþáttinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. 

Kristján Þór minntist sérstaklega á ummæli sín frá því í lok árs 2017. „Ég hét því [...] að þennan hátt myndi ég hafa á varðandi það ef einstök mál bærust upp á mitt borð sem sjávarútvegsráðherra og tengdust þessu fyrirtæki, vegna bara fyrri sögu og tengsla, þá myndi ég hafa þann háttinn á að meta það í hvert sinn hæfi mitt til þess að taka ákvarðanir í því,“ sagði hann.

Sem fyrr segir tengjast kærurnar ekki málefnum Samherja í Namibíu heldur starfsemi fyrirtækisins á Íslandi, til að mynda vegna fyrirhugaðrar tvöföldunar á fiskeldi Samherja í Öxarfirði. „Það er töluverð vegalengd frá Öxarfirði til Namibíu,“ sagði Kristján. 

Gerir lítið úr spurningum um hæfi

Þá gerði hann lítið úr gagnrýni stjórnarandstöðunnar á tengsl hans við Samherja og sagði að ekkert nýtt hefði í raun komið fram í málinu. 

„Það er ekkert nýtt varðandi hæfi mitt tengt Samherja frá árinu 2017 frá því ég gaf þessa yfirlýsingu. Ég spyr hvar hafa þessar raddir verið allan þann tíma. Það er ekkert nýtt í málinu, ekki nokkur skapaður hlutur,“ sagði Kristján Þór.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert