Vetrarsólstöður eru í dag 22. desember, en ekki á 21. degi mánaðar eins og oftast er. Þær voru klukkan 04:19 í nótt og er sólargangurinn í Reykjavík í dag fjórar klukkustundir og níu mínútur.
Í höfuðborginni kemur sólin upp klukkan 11:22 og verður hæst á lofti klukkan 13:26. Hún sest svo klukkan 15:31 og fljótlega eftir það verður myrkt í borginni.
Norðanlands er birtutími um klukkustund skemmri en syðra og í Grímsey, á heimskautsbaug, er sólarupprás í dag kl. 12:03.
Dagurinn verður 15 sekúndum lengri á morgun, Þorláksmessu, og tveimur og hálfri mínútu lengri á gamlársdag.
Hvað sem tímasetningum líður er boðskapurinn samt sá að daginn fer nú að lengja og senn kemur vor.