„Björgunarsveitir lifa ekki án flugelda“

Sala á flugeldum fer hægt en örugglega af stað samkvæmt formönnum björgunarsveita á Akureyri og í Reykjavík, en flugeldavertíð björgunarsveita, íþróttafélaga og einkaaðila hófst í dag. Fjölmargir velja að kaupa flugelda af björgunarsveitum, en flugeldasala er mikilvæg fjármögnun fyrir Landsbjörg. 

„Salan fer rólega af stað eins og alltaf þennan fyrsta dag sölu. Þetta er svona sá dagur sem við notum til að fínpússa hlutina og koma okkur í gírinn. Það eru nú ekki mörg prósent heildarsölunnar að koma inn í dag, þetta er meira bara svona til að gera okkur klár fyrir aðalsveifluna sem kemur inn 30. og 31. desember,“ segir Þorvaldur Friðrik Hallsson, formaður björgunarsveitarinnar Ársæll í Reykjavík. 

„Þetta er alltaf rólegt. Svo er að sjálfsögðu laugardagur og fólk er bara að gera annað, jólaboðin eru á útopnu og fólk er ennþá í kjötsvima eftir jólin. Þetta fer ekkert af stað fyrir alvöru fyrr en á mánudaginn, sagan segir okkur það. Maður er búinn að vera í þessu á þriðja áratug og það er aldrei keypt mikið á fyrsta degi sölu,“ segir Þorvaldur. 

Gunnlaugur Búi, formaður Súlna.
Gunnlaugur Búi, formaður Súlna. mbl.is/Þorgeir

Rótarskotin vinsæl

Gunnlaugur Búi Ólafsson, formaður björgunarsveitarinnar Súlna á Akureyri, segir söluna hafa farið ágætlega af stað. „Heilt yfir er bara búið að ganga vel. Salan fer bara af stað eftir væntingum, það er alltaf lang rólegast fyrstu dagana,“ segir Gunnlaugur, en björgunarsveitin Súlur var með flugeldakynningu í kvöld á bílaplani Útgerðarfélags Akureyrar, eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði sem fréttaritarinn Þorgeir Baldursson tók. 

Í nýrri könnun Maskínu um afstöðu almennings til flugelda kemur fram að afstaða til flugelda er neikvæðri en áður. Rúmlega 37% fólks vill áfram óbreytt fyrirkomulag á flugeldasölu, en gríðarlegt svifryk fylgir flugeldum og sendi Félag íslenskra lungnalækna frá sér áramótakveðju í gær þar sem almenningur er hvattur til þess að draga úr magni flugelda sem skotið er upp og velja frekar aðra möguleika eins og rótarskot, en björgunarsveitir hófu í fyrra að selja rótarskot í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands. 

Aðspurður segir Gunnlaugur að sala á rótarskotum fari prýðilega af stað. „Það fer alveg hellingur af þeim. Það kom okkur á óvart í fyrra hversu vinsæl þetta var þannig við undirbjuggum okkur betur í ár,“ segir hann. 

Gunnlaugur segir söluna undanfarin ár þó lítið hafa breyst. „Auðvitað kemur þessi umræða upp hver áramót en fólk tekur okkur samt alltaf vel,“ segir hann og bætir við að flugeldasalan er gríðarlega mikilvæg fyrir björgunarsveitir landsins sem hafa sannarlega staðið í ströngu á árinu.

„Þetta er bara mikilvægasti þátturinn í fjáröflun okkar. Björgunarsveitirnar lifa einfaldlega ekki án flugelda. Það er bara þannig eins og staðan er í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert