Áramótaball Palla í uppnámi vegna lokunar Spot

Óljóst er hvort áramótaball Páls Óskars fer fram í ár.
Óljóst er hvort áramótaball Páls Óskars fer fram í ár. mbl.is/Árni Sæberg

Árlegt áramótaball Páls Óskars á skemmtistaðnum Spot í Kópavogi er í uppnámi eftir að staðnum var lokað í gær vegna útrunnins vínveitingaleyfis. Páll Óskar og fleiri hafa reynt að ná í Árna Björnsson, eiganda Spot, í allan dag en án árangurs og því er óljóst hvort ballið fer fram.

Þetta kom fram í DV, sem segir að um það bil hundrað manns hafi verið í einkasamkvæmi þegar staðnum var lokað og þeim hafi öllum verið komið út.

Hafa ekki hugmynd um hvort ballið fer fram

„Það eina sem við Palli vitum er að við fréttum að staðurinn væri lokaður og við nánari athugun kom í ljós að svo er. Við náum ekki í Árna sjálfan og vitum því bara ekki neitt. Það er búið að reyna að ná í hann í allan dag,“ sagði Inga Örlygsdóttir, samstarfskona Páls Óskars og skipuleggjandi, í samtali við mbl.is.

„Eins og staðan er núna höfum við ekki hugmynd um það hvort ballið getur farið fram. En við munum fara til sýslumanns strax í fyrramálið og spyrja hvort þetta vínveitingaleyfi verði afgreitt eða ekki vegna þess að það er ekki hægt að halda fólki í óvissu,“ bætir hún við.

Allir miðar verða endurgreiddir

Enn er hægt að kaupa miða á ballið á midi.is en Inga tekur fram að allir miðar verði endurgreiddir geti ballið ekki farið fram. Inga var eigandi Nasa áður en staðnum var lokað árið 2012 og síðan þá hefur áramótaball Páls Óskars farið fram á Spot án vandræða.

„Manni brá svolítið við þessar fréttir, það hefur verið alls konar undirbúningur í gangi. Ball er ekki ákveðið með korters fyrirvara. Miðasala er bara í okkar höndum þannig að allir miðar verða að sjálfsögðu endurgreiddir,“ segir hún.

Páll Óskar hefur haldið áramótaball árlega á Spot í Kópavogi …
Páll Óskar hefur haldið áramótaball árlega á Spot í Kópavogi síðan Nasa var lokað. mbl.is/Árni Sæberg

Skítt að ná ekki í Árna

Spurð hvort miklir fjármunir muni fara í vaskinn ef ballið fer ekki fram játar hún því en segir að endurgreiðsla miða verði í forgangi.

„Það er alltaf tap en það verður bara að hafa það. Það verður að endurgreiða fólkinu sem hefur keypt miða og það verður í forgangi hjá okkur. Okkur finnst aðallega skítt að við náum ekki í hann Árna,“ segir hún að lokum.

Hvorki náðist í Árna Björnsson, eiganda Spot, né Pál Óskar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert