Kynferðisbrot í jafnréttislöndum fjölmörg

Vitundarvakning um kynferðisbrot í samfélaginu hefur verið mikil síðustu ár. …
Vitundarvakning um kynferðisbrot í samfélaginu hefur verið mikil síðustu ár. Samt eru kynferðisbrot gríðarlega mörg. mbl.is/Valli

Aukning á tilkynningum um kynferðisbrot hefur átt sér stað í öllum löndum sem kenna sig við jafnrétti, þar á meðal Íslandi, á síðustu árum. Þetta segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.

Hún samsinnir því að það sé kaldhæðnislegt að í löndum sem kenni sig við jafnrétti sé samt sem áður að finna gríðarlegan fjölda kynferðisbrota en í fyrra fengu Stígamót 418 mál inn á borð til sín og lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 370 mál. 

Þar sem einungis 45 mál af þeim 418 sem komu inn á borð Stígamóta í fyrra voru kærð þá standa eftir 373 kynferðisbrot sem aldrei komu til kasta lögreglu. Því voru tilkynningar um kynferðisbrot því í raun að minnsta kosti um 750 talsins og þá eru ótaldar tilkynningar sem lögregluembætti annarra landssvæða fengu inn á sín borð og þær tilkynningar sem aðrar miðstöðvar fyrir þolendur fengu til sín. 

„Við það bætast þau brot sem aldrei eru tilkynnt. Við vitum ekki hvað þau eru mörg en þau eru eflaust mjög mörg,“ segir Guðrún. 

Þreföldun í tilkynningum um nauðganir

Nýlega birti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afbrotatölfræði fyrir árið 2018 en þar kom fram að kynferðisbrotum hafi fjölgað um 23% á milli áranna 2017 og 2018. „Flest mál sem koma til okkar fara aldrei til lögreglunnar,“ segir Guðrún. 

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta. mbl.is/Hari

„Ef við tökum nauðganir sérstaklega fyrir þá fjölgaði þeim úr 97 í 250 frá 1997 til 2017. Þar er því um að ræða nærri þrefalda aukningu. Hún á sér líka stað í löndunum í kringum okkur og hefur með að gera vitundarvakningu á meðal kvenna. Konur sætta sig síður við að vera beittar ofbeldi.“

Lengi vel hefur aukning á tilkynningum um kynferðisbrot verið útskýrð með þeim hætti að þolendur þori nú frekar að segja frá en ella vegna vitundarvakningar í samfélaginu. Aukningin hefur þó verið bæði stöðug og umtalsverð en Guðrún segir að það sé erfitt að segja hvort fjölgun tilkynninga tengist vitundarvakningu eða einfaldlega því að kynferðisbrotum sé í raun að fjölga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert