Ekki hefur tekist að hafa hendur í hári þeirra sem stálu flugeldum, að andvirði einnar milljónar króna, úr húsnæði björgunarsveitarinnar Bróðurhandar undir Eyjafjöllum í nótt. Einar Viðar Viðarsson, formaður Bróðurhandar, segir að lögregla muni yfirfara öryggismyndavélar af þjóðveginum í von um að koma auga á grunsamlegar ferðir, en hann segist ekki vita hve bjartsýnn hann er á að þýfið finnist.
Innbrotið var framið í nótt, einhvern tímann á milli 22.30 og 9.30 í morgun. Þjófarnir spenntu hurð á húsnæði sveitarinnar upp með kúbeini og létu greipar sópa.
Stutt er síðan flugeldum var stolið af Hjálparsveit skáta í Kópavogi, en þá var lögregla fljót að hafa uppi á þýfinu og skila til réttmætra eigenda. Voru fjórir handteknir í kjölfarið. Þá hefur mbl.is heimildir fyrir því að reynt hafi verið að brjótast inn í húsnæði Björgunarsveitar Landeyja í nótt, en ummerki á húsnæði gáfu til kynna að reynt hefði verið að spenna upp hurð á húsinu með verkfæri, án árangurs.