Byggðaójöfnuður hafi afhjúpast í óveðrinu

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gerði byggðaójöfnuð á Íslandi að sínu …
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, gerði byggðaójöfnuð á Íslandi að sínu helsta umtalsefni í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar segir í áramótagrein sinni í Morgunblaðinu í dag að óveðrið í desembermánuði hafi afhjúpað byggðaójöfnuð á Íslandi hvað varðar innviði samfélagsins.

„Þetta ójafnvægi höfum við raunar séð birtast á fleiri vegu. Má þar nefna nýlegar niðurstöður Pisa-rannsóknar, sem sýna að líklega er fámennari byggðarlögum sniðinn þrengri stakkur til að sinna fullnægjandi skólastarfi en eðlilegt er. Það liggja miklir almannahagsmunir í að úr því sé bætt,“ skrifar Logi.

„Um aldamótin 1900, þegar pólitísk ákvörðun var tekin um að staðsetja flest embætti og stofnanir í Reykjavík, bjuggu þar ríflega 6.000 manns eða um 8% landsmanna. Það var vafalítið skynsamlegt hjá fámennri þjóð í stóru landi en of lítið hefur verið hirt um að ráðast í mótvægisaðgerðir gegnum tíðina. Árið 2019 búa því 36% þjóðarinnar í Reykjavík og 64% á höfuðborgarsvæðinu. Ef ekkert verður aðhafst mun sífellt hærra hlutfall þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu. Rökin fyrir því að allt þurfi að vera staðsett í Reykjavík, því þar sé fólkið, munu verða enn veigameiri og ójafnvægið verður að endingu svo mikið að lítið verður við ráðið. Landsbyggðin þarf á sterkri höfuðborg að halda en höfuðborgin þarf líka á öflugri landsbyggð að halda,“ segir formaðurinn, sem segir nauðsynlegt að leggja fram djarfa byggðastefnu með áherslu á stærstu bæi landsbyggðarinnar, sameiningu sveitarfélaga og endurskoðaða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Logi segir að ójöfnuður á Íslandi birtist einnig í fleiri myndum.

„Þrátt fyrir að við státum gjarnan af góðum samanburði við önnur lönd og veifum hagstæðum meðaltölum sem sýna velsæld búa alltof margir við ömurleg kjör. Þetta er algerlega óviðunandi og óþarfi í tíunda ríkasta landi veraldar. Þetta er ómannúðlegt og skapar óhamingju. Auk þess er þetta heimskuleg efnahagsstjórn og sogar mátt úr samfélaginu þegar við þurfum að sækja fram, á tímum mikilla breytinga. Það þarf að taka með í reikninginn hvað það kostar að lágtekjufólk neiti sér um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, eigi ekki fyrir mat milli mánaða eða einangrist félagslega,“ ritar Logi.

Áramótagrein Loga má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag, gamlársdag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert