Karlmaður var handtekinn af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í Breiðholti í Reykjavík um níuleytið í gærkvöldið. Maðurinn var á nærbuxunum einum fata og blóðugur á höndum eftir að hafa brotið rúðu, en hann hafði ruðst inn í íbúð hjá ókunnugum.
Fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni að maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi og verið vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í fleiri horn að líta í gærkvöldi og í nótt og hafði meðal annars afskipti af ökumönnum undir áhrifum áfengis, fíkniefna eða hvors tveggja en einnig vegna eignaspjalla. Þannig voru til að mynda fimm rúður brotnar í skóla í Árbæ í Reykjavík.