Ekki ásættanlegt háttalag

Guðmundur Ingi umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi umhverfisráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra segir eitthvað rangt við það að hlutur sem hann noti aðeins í nokkrar mínútur verði áfram til í mörg hundruð ár. Finnst honum sú tilhugsun vera óþægileg. 

„Mér finnst við ekki lengur geta leyft okkur þetta háttalag, nú þegar við vitum hvaða áhrif það hefur á jörðina okkar,“ skrifar Guðmundur Ingi á Facebook, en fyrir jól setti ráðherrann í samráðsgátt drög að frumvarpi til laga sem takmarkar notkun á einnota plasti. 

Meðal vara sem verða bannaðar á markaði eru einnota bómullarpinnar úr plasti, plastdiskar, -hnífapör, -sogrör, -hræripinnar og blöðruprik sem og matarílát, drykkjarílát og bollar úr frauðplasti. 

„Við getum svo vel notað aðra hluti í staðinn. Frumvarpsdrögin gera líka ráð fyrir að einnota plastbollar og matarílát sem maður fær t.d. á skyndibitastöðum megi ekki lengur vera ókeypis,“ skrifar Guðmundur Ingi. „Þetta er stórt skref fram á við þegar kemur að plastmengun.“

Í frumvarpinu er einnig tekið fram að merkja skuli sérstaklega einnota plastvörur með upplýsingum um meðhöndlun vörunnar eftir notkun og neikvæð áhrif vörunnar ef hún berst út í umhverfið. Dæmi um vörur sem sú grein tæki til eru ýmsar tíðarvörur, blautþurrkur, ýmsar tóbaksvörur og bollar fyrir drykkjarvörur. 

Frumvarp Guðmundar hefur ekki farið varhluta af gagnrýni, en umhverfissamtökin Blái herinn hafa sagt að frumvarpið sé ekki til þess fallið að breyta því að Íslendingar eru eftirbátar þeirra þjóða sem við berum okkur saman við þegar kemur að flokkun.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert