Éljagangur getur skapað erfið akstursskilyrði á vestanverðu landinu í kvöld og Veðurstofan varar við hvassviðri eða stormi á Austur- og Suðausturlandi á morgun. Þá er útlit fyrir hríð á Norðausturlandi á morgun. Gul viðvörun er í gildi á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, á Austfjörðum og Suðausturlandi.
Í kvöld er útlit fyrir norðvestan- og vestanátt, 10-15 metra á sekúndu og frost á bilinu 3-10 stig. Á morgun gengur í 15-23 metra á sekúndu, en mun hægari á Suðvestur- og Vesturlandi. Snjókoma verður fram eftir degi norðanlands, annars él, en léttskýjað sunnan heiða. Seinni partinn fer að lægja en áfram verður kalt í veðri.
Á laugardag:
Gengur í suðaustan 18-25 m/s með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu. Hlýnandi veður. Snýst í suðvestan 10-18 seinnipartinn með skúrum eða slydduéljum, en léttir til norðaustanlands.
Á sunnudag:
Suðvestanátt, víða 13-18 m/s. Bjartviðri A-lands, annars skúrir eða él. Hægari síðdegis og hiti um frostmark, en vaxandi suðaustanátt syðst um kvöldið.
Á mánudag:
Breytileg átt, hvass vindur á köflum. Slydda eða rigning og hiti 1 til 6 stig, en snjókoma og kólnar V-til á landinu um kvöldið.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Suðvestanátt með éljum, en úrkomulítið á NA-verðu landinu. Kólnandi veður.