Sex sækjast eftir stöðu ríkissáttasemjara

Stíft hefur verið fundað í húsnæði ríkissáttasemjara síðustu misseri. Nýr …
Stíft hefur verið fundað í húsnæði ríkissáttasemjara síðustu misseri. Nýr ríkissáttasemjari verður skipaður á næstunni en sex sækjast eftir starfinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sex umsóknir bárust um stöðu ríkissáttasemjara sem félagsmálaráðuneytið auglýsti 5. desember. Umsóknarfrestur rann út 20. desember og hefur listi yfir umsækjendur nú verið birtur. 

Aðalsteinn Leifsson framkvæmdastjóri, Gylfi Arnbjörnsson hagfræðingur, Herdís Hallmarsdóttir lögmaður, Lara De Stefano þjónn, Ólafur Þorsteinn Kjartansson ráðgjafi og Rannveig S. Sigurðardóttir hagfræðingur sóttu um starfið. Gylfi hafði áður greint frá því að hann væri meðal umsækjenda.

Bryn­dís Hlöðvers­dótt­ir, fráfarandi ríkissáttasemjari, sagði starfi sínu lausu í haust til að taka við starfi ráðuneyt­is­stjóra í for­sæt­is­ráðuneyt­inu. Í gær var greint frá því að Helga Jónsdóttir mundi sinna starfinu uns nýr ríkissáttasemjari yrði ráðinn. 

Umsóknirnar verða nú metnar af sérstakri ráðgefandi hæfnisnefnd sem félags- og barnamálaráðherra mun skipa.  Eftirtaldir hafa verið tilnefndir til setu í nefndinni: Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins. Auk þess mun ráðherra skipa Gissur Pétursson ráðuneytisstjóra formann nefndarinnar. Bjarnheiður Gautadóttir, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, mun starfa með nefndinni.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, mun skipa í embættið til fimm ára þegar hann hefur fengið tillögur nefndarinnar í hendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert