Stór skjálfti við Bárðarbungu

Skjálftinn varð upp úr klukkan hálf fimm í nótt.
Skjálftinn varð upp úr klukkan hálf fimm í nótt. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Stór skjálfti varð við Bárðarbungu í Vatnajökli um klukkan hálffimm í nótt. Mælingar gefa til kynna að skjálftinn hafi verið af stærðinni 4,8.

Samkvæmt upplýsingum á vef Veðurstofu Íslands hefur að minnsta kosti einn stór eftirskjálfti fylgt í kjölfarið, rétt fyrir klukkan fimm, og mældist hann 4,2 að stærð.

Skjálftar áður mælst 4,8 og 4,9 að stærð

Skjálftinn í nótt er með þeim stærri sem orðið hafa við Bárðarbungu frá því gosi lauk í henni í febrúar 2015.

Ein­ar Hjör­leifs­son, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stof­unni, sagði í sam­tali við mbl.is í desember 2018, þegar skjálfti mældist af stærðinni 4,8, að aðeins tveir stærri skjálftar hefðu orðið í Bárðarbungu frá gos­lok­um snemma árs 2015.

Mældust þeir báðir 4,9 að stærð, í janúar og júní árið 2018.

Síðast voru fluttar fréttir af skjálftum í Bárðarbungu í nóvember á nýliðnu ári, en stærsti skjálft­inn í þeirri hrinu var 4,0 að stærð.

Uppfært 8:12 með staðfestri stærð skjálftans en hann var áður sagður 5,0 að stærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka