Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, verður í næstu ríkisstjórn Íslands. Þessu spáir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Ölfusi og fyrrverandi oddviti sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum.
Ummælin lætur Elliði falla á Facebook-síðu sinni í umræðum um stöðufærslu þar sem hann lýsir þeirri skoðun sinni að Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs hafi staðið sig best í umræðum í þættinum Kryddsíldinni á Stöð 2 sem fram fóru á gamlársdag.
Þeirri skoðun er lýst í umræðunum að Sigmundur Davíð hafi einnig komið sterkur inn í umræðuna og tekur Elliði undir þá skoðun með þessum orðum: „Sammála, hann kemur inn í næstu ríkisstjórn.“
Þingkosningar fara á næsta ári, þá líklega um vorið, en núverandi ríkisstjórn samanstendur af VG, Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum undir forsæti Katrínar.