„Það klikkaði allt sem klikkað gat“

Bálið í Vesturbænum var með minnsta móti sökum erfiðra veðurskilyrða.
Bálið í Vesturbænum var með minnsta móti sökum erfiðra veðurskilyrða. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það klikkaði allt sem klikkað gat,“ segir Hörður Heiðar Guðbjörnsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg og skipuleggjandi brennunnar sem kveikja átti við Ægisíðu fyrr í kvöld, í samtali við mbl.is. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist ekki að kveikja eld nema rétt í lokin.

„Timbrið var allt of blautt, það gekk erfiðlega að setja olíuna á út af roki í dag og eftir að olían var komin á kom slydda og rigning. Þetta var bara allt of blautt og það náðist aldrei að koma eldi í þetta nema rétt smá í lokin,“ útskýrir Hörður, auðheyranlega svekktur, fyrir blaðamanni.

Þrettándagleðin í Vesturbænum hófst við Melaskóla fyrr í kvöld þar sem fólk safnaðist saman og svo hófst skrúðganga þar sem gengið var með kyndla frá skólanum niður að Ægisíðu. Þegar þangað kom stóð til að kveikja í brennunni og kveðja jólahátíðina almennilega en það gekk ekki eftir.

Það var líf og fjör við Melaskóla áður en skrúðgangan …
Það var líf og fjör við Melaskóla áður en skrúðgangan hófst. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það var flott mæting bæði uppi í Melaskóla og í skrúðgöngunni niður að Ægisíðu. Svo var hellingur af fólki við Ægisíðuna sem beið eftir að það kviknaði í brennunni,“ segir Hörður sem gat ekki leynt vonbrigðum sínum í samtali við mbl.is enda hafði undirbúningurinn staðið yfir í margar vikur. Flugeldasýningin fór þó fram samkvæmt áætlun.

Hann gat þó leyft sér að horfa á björtu hliðarnar. „Ef það er eitthvað jákvætt þá er það hversu mikinn skilning fólk sýndi. Maður er þakklátur fyrir það. Svona er þetta stundum,“ bætir hann hlæjandi við að lokum.

Fólk sýndi mikinn skilning og lét vonbrigðin með brennuna lítið …
Fólk sýndi mikinn skilning og lét vonbrigðin með brennuna lítið á sig fá. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gekk betur utan höfuðborgarsvæðisins

Sem betur fer voru aðstæður til íkveikju töluvert betri víðast hvar á landinu en í Vesturbænum og vel gekk að kveikja þrettándabrennur á Selfossi, í Ólafsvík og á Húsavík. Hæglætisveður var fyrir norðan þar sem jólin voru kvödd með brennu og flugeldasýningu Kiwanisklúbbsins Skjálfanda. Þá söng stúlknakór Húsavíkur nokkur lög.

Þrátt fyrir smá úrkomu á Húsavík viðraði vel til að …
Þrátt fyrir smá úrkomu á Húsavík viðraði vel til að kveðja jólin með brennu og flugeldasýningu. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

Mikilfengleg skrúðganga með traktorum, jólaljósum og kyndlum fór fram á Selfossi þar sem mætingin var gríðarlega góð og þá var sömuleiðis öflug mæting á Ólafsvík. 

Skrúðgangan á Selfossi var mikið fyrir augað.
Skrúðgangan á Selfossi var mikið fyrir augað. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson
Unga kynslóðin sýndi listir sínar með stjörnuljós í Ólafsvík.
Unga kynslóðin sýndi listir sínar með stjörnuljós í Ólafsvík. mbl.is/Alfons Finnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert