„Ég ber fullt traust til ríkislögmanns og að hann geri eðlilega samninga. Þar er þekkingin og reynslan innan stjórnkerfisins til að meta hvað er rétt og eðlilegt í svona málum. Það fer að sjálfsögðu eftir aðstæðum hverju sinni en ég treysti því að ríkislögmaður fari með þessi mál af fagmennsku.“
Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð um upphæð samkomulagsins, 20 milljónir króna, sem ríkislögmaður gerði við Ólínu Þorvarðardóttur um bótagreiðslu vegna brots Þingvallanefndar gegn henni við ráðningu þjóðgarðsvarðar.
Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Þingvallanefnd hafi brotið gegn jafnréttislögum þegar Einar Á. E. Sæmundsen var skipaður þjóðgarðsvörður á Þingvöllum. Þingvallanefnd ákvað að una þeirri niðurstöðu og málið því sent til ríkislögmanns til úrlausnar.
Jafnréttismál heyra þó undir forsætisráðuneyti Katrínar en hún segir að málið sem slíkt hafi ekki komið inn á borð ráðuneytisins fyrir utan bréf sem ríkislögmaður sendi ráðuneytinu þar sem hann óskaði eftir því að vita hvort forsætisráðuneytið gerði athugasemd við að embætti ríkislögmanns færi með málið. Ráðuneytið gerði engar athugasemdir við það.
„Málið var bara undir Þingvallanefndinni sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Kærunefnd jafnréttismála er svo bara ein af þessum sjálfstæðu úrskurðarnefndum og þau mál koma ekki inn á borð ráðuneytisins.“
Embætti ríkislögmanns heyrir að sama skapi undir forsætisráðuneytið en Katrín tekur fram að um sé að ræða sjálfstætt embætti og því hafi hvorki hún né starfsmenn ráðuneytisins komið að málinu á neinu stigi.
Uppfært klukkan 21:18.
Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að málið hefði ekki komið á borð forsætisráðuneytisins. Síðar bárust upplýsingar um að ríkislögmaður hefði sent ráðuneytinu bréf þar sem óskað var eftir því að vita hvort ráðuneytið gerði athugasemdir við að embætti ríkislögmanns færi með málið. Ráðuneytið gerði engar athugasemdir. Fréttinni hefur því verið breytt í samræmi við síðar framkomnar upplýsingar.