Fólk á öllum aldri í hópnum

Aðstæður voru afar erfiðar og krefjandi.
Aðstæður voru afar erfiðar og krefjandi. Ljósmynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg

Flestir þeirra sem voru í hópi vélsleðafólks sem lenti í vanda við rætur Langjökuls eru komnir í fjöldahjálparmiðstöð Rauða krossins í Gullfosskaffi að sögn Jóns Grétars Guðmundssonar sem er á staðnum á vegum Rauða krossins. Um er að ræða hóp ferðamanna á öllum aldri og eru meðal annars börn í hópnum.

Við erum enn að fá fólk í hús til okkar en færðin er mjög slæm hér upp frá segir Jón Grétar í samtali við blaðamann mbl.is.

Verið er að meta ástandið á fólkinu og verið að veita því fyrstu sálrænu aðstoðina en margir eru kaldir og hraktir enda búnir að vera úti í vonskuveðri frá því klukkan 13 í gær. 

Jón Grétar segir að ferðalagið með snjóbílum og björgunarsveitarbílum af vettvangi á Gullfoss hafi tekið nokkrar klukkustundir. Boðið er upp á veitingar og eins er Rauði krossinn með fatnað fyrir þá sem þurfa.

Um dagsferð var að ræða og áttu sumir bókað flug frá landinu í morgun. En líkt og fram hefur komið hefur nánast allt millilandaflug legið niðri frá því klukkan 13 í gær.

Mikill fjöldi björgunarsveitafólks tók þátt í aðgerðum í gærkvöld og nótt þar sem 39 manns var bjargað við rætur Langjökuls eftir að hafa lent á hrakhólum í snjósleðaferð þegar veður versnaði.

Vont veður, þung færð og lítið sem ekkert skyggni gerði aðgerðir viðbragðsaðila mjög erfiðar. Fólkið hafði leitað skjóls í tveimur bílum í langan tíma og var orðið blautt, kalt og skelkað þegar björgunarsveitamenn fundu hópinn klukkan hálfeitt í nótt.

Klukkan tvö höfðu allir verið fluttir af vettvangi í snjóbílum og var þeim komið í þurr föt og gefið heitt að drekka. Sjúkraflutningamenn og sjálfboðaliðar frá RKÍ tóku svo á móti þeim og hlúðu að þeim og mátu ástand hópsins með tilliti til frekari aðhlynningar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert