„Hélt að einhver væri að reykja“

Tjónið á Sola-flugvellinum utan við Stavanger er talið hlaupa á …
Tjónið á Sola-flugvellinum utan við Stavanger er talið hlaupa á hundruðum milljóna norskra króna, milljörðum íslenskra, en á bilinu 1.500 til 1.600 bílar urðu með einhverjum hætti fyrir áhrifum, þar af eru mörg hundruð gjörónýtir. Ljósmynd/Jakob Sigurðarson

„Það voru sprengingar og læti, bensíntankar og dekk að springa hægri vinstri og svo bættust alltaf við fleiri slökkviliðsbílar. Þeir réðu náttúrulega ekkert við þetta fyrst.“ Svo segist Helgu Sjöfn Magnúsdóttur, starfsmanni í miðasölu og komuskrifstofu Sola-flugvallarins utan við Stavanger í Noregi, frá þegar hún segir frá stórbruna sem þar varð í bílastæðahúsi í gær með þeim afleiðingum að hluti hússins, sem stendur við hlið flugstöðvarbyggingarinnar, hrundi og mörg hundruð bílar urðu eldinum að bráð.

Norskir fjölmiðlar greina frá því í dag að tjónið hlaupi á hundruðum milljóna norskra króna og á bilinu 1.500 til 1.600 bifreiðar hafi með einum eða öðrum hætti orðið fyrir áhrifum af brunanum, þar af eru margar gjörónýtar. Fyrsta tilkynning um brunann barst klukkan 15:35 að staðartíma, 14:35 á Íslandi, en slökkvilið náði ekki undirtökunum fyrr en um miðnætti í gær og stóð slökkvistarf á flugvellinum þar til í morgun.

Stór hluti bílastæðahússins hrundi eftir að logað hafði glatt í …
Stór hluti bílastæðahússins hrundi eftir að logað hafði glatt í mörg hundruð bifreiðum þar inni í gær. Sökudólgurinn var af gerðinni Opel Zafira en kviknað hefur í 300 slíkum bifreiðum síðasta áratuginn, þar af varð stórbruni af í bílastæðahúsi í Cork á Írlandi 31. ágúst í fyrra. Ljósmynd/Jakob Sigurðarson

En hvernig upplifði starfsfólk flugvallarins að horfa inn í eld og eimyrju á vinnustaðnum sem það gengur til dag hvern?

„Ja, bíllinn minn stóð þarna inni sko,“ segir Helga og er létt yfir að hann var þannig staðsettur að verða ekki eldhafinu að bráð. Bíllinn var í gamla húsinu, fjær brunanum, og slapp með sótþekju. Hún segir fleira starfsfólk hafa átt bíla í bílastæðahúsinu sem eðlilega hafi ekki vakið þægilegar tilfinningar.

Starfa bæði á flugvellinum

Helga og Jakob Sigurðarson sambýlismaður hennar, sem starfar sem hlaðmaður á flugvellinum og tók myndirnar sem fylgja þessum línum, fá færleik sinn líklega til baka á morgun því engum er hleypt inn í bílageymslurnar og dráttarbílaþjónustan Falck mun sækja alla ó- eða lítið skemmda bíla og koma þeim í þrif áður en þeir eru afhentir eigendum.

Helga Sjöfn Magnúsdóttir og sambýlismaður hennar Jakob Sigurðarson starfa á …
Helga Sjöfn Magnúsdóttir og sambýlismaður hennar Jakob Sigurðarson starfa á flugvellinum í Sola. Þau eiga innilokaðan bíl í bílastæðahúsinu sem slapp þó við tjón. Helga var ásamt samstarfsfólki sínu fram undir miðnætti í gær á hóteli í Stavanger að sinna farþegum sem voru strandaglópar og kveðst mjög ánægð með fumlaus viðbrögð lögreglu, slökkviliðs, Avinor, öryggisvarða og annarra sem að málinu komu. Ljósmynd/Jakob Sigurðarson

Fulltrúar tryggingafélaganna eru nú á staðnum, meðal annars til að taka á móti komufarþegum sem eiga gjörónýta eða skemmda bíla í rústum bílastæðahússins, auk þess sem lögregla rannsakar upptök brunans sem norskir fjölmiðlar greindu í dag frá að hefði verið bifreið af gerðinni Opel Zafira, þekktur vandræðagripur að þessu leyti því kviknað hefur í hvorki meira né minna en 300 slíkum síðasta áratuginn og er ekki lengra síðan en 31. ágúst í fyrra að bifreið sömu gerðar olli stórbruna í bílastæðahúsi í Cork á Írlandi þar sem 197 bílar brunnu inni.

Upplifunin var býsna sterk fyrir starfsfólk flugvallarins eins og Helga lýsir: „Kolsvartur reykur teygði sig langt upp í loftið og inn á milli sá maður fleiri hundruð bíla í ljósum logum.“ Þegar eldurinn kom upp síðdegis í gær og brunalyktin tók að berast inn í sjálfa flugstöðvarbygginguna áttaði Helga sig ekki í fyrstu um hvað var að ræða. „Ég hélt að einhver væri að reykja, eða hefði verið að reykja og væri nýkominn inn, þetta var ekki svona týpísk brunalykt, en svo fann ég að þetta var eitthvað annað,“ segir Helga.

Þrautgóðir á raunastund

Hún segir alla viðbragðsaðila hafa gengið fumlaust til verks. „Þetta var ótrúlega vel unnið af öllum þarna, lögreglunni, Avinor [rekstraraðila norskra flugvalla], starfsfólkinu á flugvellinum og Securitas. Sola [sveitarfélagið] tók bara yfir stjórnina og fólki var bannað að koma nálægt bílastæðahúsinu,“ segir Helga.

Norskir fjölmiðlar við loftmyndatökur á svæðinu í gær.
Norskir fjölmiðlar við loftmyndatökur á svæðinu í gær. Ljósmynd/Jakob Sigurðarson

Allir farþegar hafi verið fluttir af afgreiðslusvæði innanlandsflugs yfir á alþjóðaflugsvæðið sem var fjær brunanum. Svo hafi tekið við vinna við að rýma svæðið og rútur tekið að streyma að til að ferja farþega, sem hvorki komust lönd né strönd, á hótel í nágrannabænum Stavanger.

„Allir fengu að drekka og svo vorum við starfsfólkið bara þarna í því að svara spurningum um hvað myndi gerast. Fólki var svo skipt í hópa eftir því hverjir þurftu far heim og hverjir þurftu að komast á hótel,“ segir Helga. Hún segist svo sjálf hafa farið á hótelið í Stavanger um áttaleytið í gærkvöldi ásamt fleira starfsfólki flugvallarins og verið þar fram undir miðnætti við að aðstoða farþega og reyna að svara spurningum þeirra eftir bestu getu. „Fólk fékk náttúrulega ekki töskurnar sínar og þurfti að spyrja að ýmsu, en allir voru ótrúlega rólegir og enginn pirringur eða neitt í fólki,“ segir Helga að lokum og ítrekar ánægju sína með framgöngu viðbragðsaðila og samstarfsfólks síns.

Talið er að um 450 bílar séu gjörónýtir og 200 …
Talið er að um 450 bílar séu gjörónýtir og 200 til 300 hafi orðið fyrir tjóni en 1.618 bílar voru í húsinu þegar eldurinn kom upp. Þetta eru bráðabirgðatölur sem mbl.is fékk frá slökkviliði og munu vafalítið breytast. Ljósmynd/Jakob Sigurðarson

Sáu þykkan reykjarmökk

Ragnar Vilhelmsen Hafsteinsson, kranastjóri hjá Sumitomo Metals, japönsku fyrirtæki sem framleiðir rör fyrir olíubrunna, var að afferma skip við Risavika-höfnina, aðeins örfáa kílómetra frá flugvellinum, á Tananger sem svo heitir, þar sem flest olíufyrirtækin á svæðinu hafa aðsetur. „Við vorum nýbúnir að losa bát í mígandi rigningu og á leið aftur í hús,“ segir Ragnar. „Þá sáum við svakalega þykkan reykjarmökk leggja yfir allt með tilheyrandi brunalykt. Við héldum að það hefði kviknað í einhvers staðar hérna rétt hjá enda er Tananger eitt stærsta iðnaðarsvæði í öllu Rogaland. En svo fengum við að vita að þetta væri á flugvellinum, um það bil sex kílómetra frá okkur,“ segir Ragnar af atburðum gærdagsins.

Slökkvilið streymdi að í gríð og erg og fékk í …
Slökkvilið streymdi að í gríð og erg og fékk í fyrstu ekki rönd við reist gagnvart eldhafinu í bílastæðahúsinu. Ljósmynd/Jakob Sigurðarson

Alls þurfti að koma yfir eitt þúsund manns burt af svæðinu og finna stórum hluta þeirra tímabundnar vistarverur. Flugferðum var enn aflýst í morgun en flugumferð til og frá Sola er nú komin í samt lag. Reynt verður að leysa bílastæðavandamál næstu vikurnar eftir föngum með því að taka starfsmannabílastæði undir bifreiðar farþega en auk þess hefur nýtt rúmgott bílastæðahús nýverið risið við Sola-flugvöllinn.

Slökkviliðsmaður sem mbl.is heyrði frá gegnum annan mann segir að alls hafi 1.618 bifreiðar verið í húsinu. Þar af sé talið að 450 séu gjörónýtar en á bilinu 200 til 300 að auki hafi orðið fyrir tjóni. Hér er þó aðeins um fyrstu tölur að ræða og ber að taka með fyrirvara.

Viðbragðsaðilar sem norskir fjölmiðlar hafa rætt við í dag segja mest um vert að bruninn kostaði ekki mannslíf. Samkvæmt fyrstu tilkynningu sem lögreglu barst klukkan 15:35 að staðartíma í gær virtist aðeins um minni háttar tilfelli að ræða, kviknað hefði í bíl við Sola-flugvöllinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert