Veðrið er víða farið að versna en appelsínugul viðvörun er í gildi við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Flugferðum hefur verið aflýst og vegir eru lokaðir vegna snjóflóða og ófærðar. Gul viðvörun er meðal annars í gildi á höfuðborgarsvæðinu.
„Í dag geisar suðvestanstormur eða -rok, jafnvel ofsaveður, á heiðum Vestfjarða með dimmum éljagangi á vestanverðu landinu, en mun hægara fyrir austan og víða bjartviðri. Gular og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi til kvölds, en þá dregur smám saman úr veðurofsanum.
Skammt er þó stórra högga á milli því ört dýpkandi lægð er á harðastími til okkar og í fyrramálið þegar hún nálgast fer að hvessa af austri og suðaustri með snjókomu, sem síðar breytist í slyddu eða rigningu á Suður- og Austurlandi.
Á Vestfjörðum gengur í norðaustanstórhríð síðdegis á morgun og er þegar í gildi gul viðvörun til að vara við því. Látum hér staðar numið að sinni, þótt lægðagangi með tilheyrandi samgöngu- og rafmagnstruflunum virðist hvergi nærri lokið,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Við Breiðafjörð og á Vestfjörðum tók appelsínugul viðvörun gildi klukkan 2 í nótt og gildir til klukkan 18. Á Vestfjörðum er einnig gul viðvörun á morgun frá klukkan 15 og gildir hún til laugardagsmorguns.
„Suðvestanhríð með vindhraða á bilinu 20 til 28 m/s, éljagangur og skafrenningur. Lélegt skyggni, einkum í éljum, og áfram slæm akstursskilyrði. Víðtækar samgöngutruflanir líklegar, lokanir á vegum og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með færð á vegum.“
Á höfuðborgarsvæðinu hefur gul viðvörun verið í gildi síðan klukkan 3 í nótt og gildir til klukkan 17. „Suðvestan 15 til 23 m/s með éljagangi. Búast má við takmörkuðu eða lélegu skyggni í éljum, versnandi akstursskilyrðum og samgöngutruflunum, einkum í efri byggðum. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.“
Á Suðurlandi tók gul viðvörun gildi klukkan 6 í morgun og gildir til 17. „Suðvestanhríð með vindhraða á bilinu 15 til 23 m/s og éljagangi, hvassast við ströndina. Takmarkað eða lélegt skyggni í éljum og versnandi akstursskilyrði. Afmarkaðar samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar, einkum á Hellisheiði. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með færð á vegum.“
Við Faxaflóa gildir viðvörunin til klukkan 16. „Suðvestanhríð með vindhraða á bilinu 18 til 28 m/s, éljagangi og skafrenningi. Hvassast og úrkomumest verður á Mýrum og Snæfellsnesi. Takmarkað eða lélegt skyggni í éljum og áfram slæm akstursskilyrði. Afmarkaðar samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með færð.“
Gul viðvörun hefur verið í gildi síðan klukkan 4 í nótt á Ströndum og Norðurlandi vestra. „Suðvestanhríð með vindhraða á bilinu 18 til 23 m/s, hvassast á Ströndum. Búast má við éljagangi með skafrenningi. Lélegt skyggni, einkum í éljum, og áfram slæm akstursskilyrði. Afmarkaðar samgöngutruflanir og lokanir á vegum eru líklegar. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með færð á vegum.“
Á miðhálendinu tók gul viðvörun gildi í gærkvöldi og gildir til klukkan 16. Það er aftur á móti skammgóður vermir því ný gul viðvörun tekur gildi klukkan 11 í fyrramálið og gildir til miðnættis.
Eitthvað af flugvélum Icelandair sem áttu að fara í loftið í morgun fóru í nótt og síðan hefur einhverju flugi verið frestað. Næstu vélar Icelandair fara í loftið í Keflavík klukkan 11:30 en það eru flugvélar á leið til Parísar, Glasgow og Óslóar en þær áttu að fara í loftið á áttunda tímanum. Flugi til London hefur verið aflýst og eins flugi Finnair til Helsinki. Flugi EasyJet hefur verið seinkað og fara vélar EasyJet ekki fyrr en undir kvöld í stað þess að fara héðan fyrir hádegi.
Einhverjar vélar Icelandair sem voru að koma frá Bandaríkjunum og Kanada eru lentar eða eru væntanlegar hingað til lands fyrir klukkan 7 en öðru flugi hefur verið aflýst. Engar flugvélar munu lenda á Keflavíkurflugvelli frá klukkan 7:08 til 11:35. Nánar má lesa um flugáætlun til og frá Keflavíkurflugvelli hér.
Innanlandsflug liggur niðri og verður næst athugað með flug hjá Flugfélagi Íslands klukkan 12:30. Aftur á móti hefur flugfélagið Ernir aðeins aflýst flugi til Vestmannaeyja en áætlar að fljúga til Húsavíkur klukkan 8:55.
Vatnaleið er fær fyrir fjórhjóladrifnar bifreiðar en vegurinn var lokaður í nótt vegna flutningabíls sem þveraði veginn. Búið er að losa bílinn en þar er stórhríð og aðeins fært stórum bílum.
Vegurinn um Súgandafjörð er lokaður vegna snjóflóðs og eins er vegurinn um Súðavíkurhlíð lokaður vegna snjóflóðahættu. Flestar leiðir á Vestfjörðum eru lokaðar vegna vonskuveðurs og ófærðar.
Vegurinn um Þverárfjall og Öxnadalsheiði eru lokaðir og eins eru Brattabrekka og Holtavörðuheiði ófærar sem og fjölmargar aðrar leiðir á Vesturlandi, Snæfellsnesi og Norðurlandi.
Gengur í suðvestan 20-28 m/s með snjókomu eða éljagangi NV til, 15-23 og éljum SV-lands, en mun hægara og bjartviðri eystra. Dregur smám saman úr vindi og éljum síðdegis. Frost 0 til 7 stig, kaldast NA-lands.
Vaxandi austan- og suðaustanátt og fer að snjóa í fyrramálið, 15-23 m/s og slydda eða rigning S- og A-lands. Vaxandi norðaustanátt og hríðarveður á Vestfjörðum, 20-28 m/s um kvöldið, en annars víða hægari vindar og úrkomuminna. Hægt hlýnandi veður og hiti 1 til 6 stig undir kvöld.
Á föstudag:
Gengur í austan- og suðaustanhvassviðri eða -storm með snjókomu og síðar rigningu eða slyddu S- og A-lands, en norðaustanblindhríð á Vestfjörðum. Hlýnar í veðri og víða 1 til 6 stig síðdegis, en kringum frostmark fyrir norðan.
Á laugardag:
Vestlæg átt, 8-15 m/s og él, en norðaustan 15-23 og snjókoma á Vestfjörðum og við N-ströndina. Yfirleitt hægara og úrkomulítið A-lands. Kólnandi veður.
Á sunnudag:
Ákveðin norðanátt með snjókomu eða éljum á N-verðu landinu, en hæg breytileg átt og úrkomulítið sunnan heiða. Talsvert frost á öllu landinu.
Á mánudag:
Útlit fyrir vaxandi austlæga átt með snjókomu eða skafrenningi, en slyddu eða rigningu syðst. Hægt hlýnandi veður.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Líklega stífar norðaustanáttir með snjókomu eða éljagangi, einkum N- og A-lands og kólnandi veður.